Karlmaður lést í varðhaldi lögreglunnar á Suðurnesjum
Karlmaður lést í varðhaldi lögreglunnar á Suðurnesjum aðfararnótt þriðjudags. Þetta fékkst staðfest hjá lögreglunni nú í morgun en málið er til rannsóknar og voru frekari upplýsingar um manninn og dánarorsök hans ekki fáanlegar að svo stöddu. Þó þykir ekki ósennilegt að maðurinn hafi fengið hjartaáfall samkvæmt upplýsingum frá lögreglu en það skýrist þó ekki fyrr en krufning og rannsókn hafa farið fram.
Samkvæmt heimildum frá DV var maðurinn ölvaður þegar hann var færður í fangageymslur lögreglunnar og herma sömu heimildir að maðurinn hafi verið að drykkju í nokkra daga í heimahúsi í Sandgerði fyrir það en þetta kemur fram á vef dv.is.
Lögreglan gat engar frekari upplýsingar veitt að svo stöddu en fengust þær upplýsingar að tilkynning yrði að líkindum send út þegar niðurstöður rannsóknar liggja fyrir.