Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Karlar mikilvægar fyrirmyndir leikskólabarna
Miðvikudagur 10. febrúar 2016 kl. 06:00

Karlar mikilvægar fyrirmyndir leikskólabarna

Á degi leikskólans síðastliðinn föstudag var sjónum beint að fjölgun karla við kennslu yngri barna. Margir góðir gestir komu í leikskólann Gimli í Reykjanesbæ á degi leikskólans og litaðist móttökunefnd Gimlis af núverandi og fyrrverandi karlkyns leiðbeinendum á Gimli. „Við fengum marga góða gesti í heimsókn og bar þar hæst nemendur úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem í samráði við stjórnendur og kennara sína fengu leyfi til að kynna sér það fjölbreytta og lifandi starf sem fram fer á leikskólastiginu. Fræðslustjóri og leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar heiðruðu okkur einnig með nærveru sinni, sem og nokkrir foreldrar barna á Gimli og foreldrar barna á biðlista,“ segir Karen Valdimarsdóttir, leikskólastýra á Gimli.                                                             

 
Gestir á degi leikskólans gengu um skólann og fylgdust með þeim verkefnum sem í gangi voru og í lokin voru uppbyggilegar umræður um jafnrétti í leikskólastarfinu sem og í samfélaginu almennt. Að sögn Karenar lék enginn vafi á því hjá nemendum FS að karlar jafnt sem konur væru mikilvægar fyrirmyndir í uppeldi og kennslu á öllum skólastigum. „Fólk var sammála um að leikskólastarfið hefði ekki verið nægjanlega verðmerkt í gegnum tíðina og það ekki talið eins eftirsóknarvert eins og það í raun er, þar sem fram fer mikilvægt nám og kennsla í gegnum leik og hreyfingu á yngsta skólastiginu. Tala þyrfti starfið upp í stað niður og úr því þyrfti að bæta með sameiginlegu átaki í samfélaginu. Í ljósi þess sem kom fram hjá þessum ungu og efnilegu nemendum og einnig í viðtölum mínum við karlkyns leiðbeinendur sem eru og hafa starfað á Gimli, er greinilega þörf fyrir miklu meiri samvinnu á milli framhaldsskóla og atvinnulífsins,“ segir Karen. Kynna þurfi fjölbreytt störf fyrir nemendum, sem eiga að taka ákvörðun um 20 ára aldur hvaða framtíðarstarf henti þeim með tilliti til menntunar og áhuga. „Markvisssar heimsóknir á vinnustaði, kynningar og opin umræða þarf að vera jafnt og þétt meðan á framhaldsskólagöngu stendur, fyrr en seinna svo nemendur fái tækifæri til að velja ígrundað það framtíðarstarf sem þeim hugnast best. Það á að vera hinn eðlilegsti hlutur að hafa flæði á milli framhaldsskóla og atvinnulífs og eftirsóknarvert að vera í samstarfi í þágu vinnumarkaðarins,“ segir hún.            
 
Karen segir það hafa verið einstaklega gaman að fá gestina úr FS í heimsókn og að þeir hafi án efa orðið margs vísari um það mikilvæga og fjölbreytta starf sem fer fram í leikskólum. Hún leggur áherslu á að leikskólinn Gimli taki áfram fagnandi á móti áhugasömum gestum og hvetur drengi jafnt sem stúlkur til að koma og kynna sér störf leikskólakennara. „Sérstakar þakkir færum við Fjölbrautaskóla Suðurnesja fyrir ánægjulegt samstarf og þökkum þeim sem heimsóttu okkur kærlega fyrir komuna.“
 
 
 
Fræðslustjóri Reykjanesbæjar, Helgi Arnarson og leikskólafulltrúi bæjarins, Kristín Helgadóttir, kíktu í heimsókn á Gimli á degi leikskólans.
 
 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024