Karl staðgengill forstjóra Bankasýslu ríkisins
Karl Finnbogason, sérfræðingur hjá Bankasýslu ríkisins, hefur verið skipaður staðgengill forstjóra Bankasýslu ríkisins þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn. Elín Jónsdóttir lætur á morgun af starfi forstjóra Bankasýslu ríkisins en hún sagði starfinu lausu í ágústbyrjun. Staða forstjóra var auglýst laus til umsóknar 11. nóvember og rennur umsóknarfrestur út 27. nóvember.
Fram kemur í tilkynningu frá Bankasýslu ríkisins, að Karl sé hagfræðingur frá Háskóla Íslands og hafi próf í verbréfaviðskiptum. Þá hafi hann fjölbreytta reynslu sem starfsmaður fjármálafyrirtækja. Karl er ættaður úr Garðinum þar sem hann er fæddur og uppalinn.
Karl var á meðal umsækjenda um stöðu forstjóra þegar Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, var ráðinn á dögunum. Páll ákvað svo að taka ekki starfið eftir harðar deilur í þjóðfélaginu um ráðninguna.