Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Karfan styrkir MND félagið
Föstudagur 1. október 2004 kl. 13:09

Karfan styrkir MND félagið

Sunnudaginn 3. október fer meistarakeppni KKÍ fram í tíunda sinn. Að þessu sinni verður leikið í Keflavík, heimavelli Íslandsmeistara karla og kvenna. Ákveðið var að ágóði af leiknum myndi renna til MND félagsins á Íslandi.

Í kvennaflokki mætast Íslands- og bikarmeistarar Keflavíkur og silfur lið bikarkeppninnar - KR. Leikurinn hefst kl. 17:00. Liðin hafa verið tvö af bestu liðum landsins undanfarin ár og marga hildi háð. Bikarúrslitaleikurinn var æsispennandi og má vænta þess að eins verði um leikinn á sunnuudag.

Karlaleikurinn er viðureign Íslands- og bikarmeistara Keflavíkur og silfurliðs Njarðvíkur í bikarkeppninni. Leikurinn hefst kl. 19:15. Þessi tvö lið eru tvö af bestu liðum Norðurlanda, Keflvíkingar urðu Norðurlandameistarar félagsliða fyrir stuttu og á sama tíma unnu Njarðvíkingar „Knock Out Cup“ 2004 í Danmörku. Því má búast við hörkuleik eins og jafnan þegar þessi lið mætast.

Undanfarin átta ár hefur keppnin verið um leið svokallaður Góðgerðarleikur. Með því móti vill körfuboltahreyfingin láta gott af sér leiða og styrkja góð málefni. Í tengslum við leikinn fer fram söfnun á styrktaraðilum í leikskrá og rennur það fé til góðgerðarmálefnis, auk hagnaðar af miðasölu.

Þetta árið varð fyrir valinu MND félagið á Íslandi, en það er félag fólks með hreyfitaugahrörnun sem heitir á ensku Motor Nourone Disease og dregur þaðan skammstöfun sína, MND. MND er banvænn sjúkdómur sem ágerist venjulega hratt og herjar á hreyfitaugar líkamans sem flytja boð til vöðvanna. Af honum leiðir máttleysi og lömun í handleggjum, fótleggjum, munni, hálsi o.s.fv. Að lokum er um algera lömun að ræða. Vitsmunalegur styrkur helst þó óskaddaður. Líftími sjúklinga eftir að þeir fá sjúkdóminn er frá 1 -6 ár en sumir lifa lengur. Talað er um að 10% geti lifað upp undir 10 ár. Á Íslandi eru á hverjum tíma 15-20 manns með MND. Á hverju ári greinast u.þ.b. 5 manns með MND.

Ekki er vitað um orsök sjúkdómsins. Það er eitthvað sem veldur því að boð komast ekki á milli hreyfitaugafruma og vöðvinn svarar ekki því sem hugurinn vill. Hreyfitaugafrumurnar visna og deyja. Vegna hreyfingarleysis rýrna vöðvarnir. Mismunandi er hvernig sjúkdómsferlið er hjá fólki, hjá sumum byrjar sjúkdómurinn í taugum sem stjórna fótleggjum, hjá öðrum í taugum sem stjórna handleggjum og hjá enn öðrum byrjar hann í vöðvum sem stjórna öndun, kyngingu og tali. Sjúkdómurinn herjar á vöðva sem lúta viljastýrðum hreyfingur, þ.e.a.s. ekki vöðva eins og hjarta og önnur líffæri sem starfa óviljastýrt. Í mannslíkamanum eru ótal vöðvar og hefur hver og einn sitt hlutverk.
Fyrstu vísbendingar um sjúkdóminn er oftast máttleysi í útlim, kannski einum fingri eða fæti. Fleiri og fleiri vöðvar verða svo fyrir barðinu á sjúkdómnum.

Félag MND sjúklinga var stofnað 20. febrúar 1993 og er því rúmlega 12 ára. Það voru nokkrir sjúklingar sem stóðu að stofnun félagsins, þau Sigríður Eyjólfsdóttir, Jóna Alla Axelsdóttir og Rafn Jónsson. Rafn Jónsson var mikill tónlistarmaður eins og alþjóð veit, og einnig mikill körfuboltaáhugamaður og dyggur stuðningsmaður KFÍ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024