Kapphlaupið mikla: Mesta landkynning allra tíma
Sjötti hluti raunveruleikaþáttarins The Amazing Race sem tekinn var upp hér á landi í sumar var sýndur í bandarísku sjónvarpi nú fyrir skömmu. Áætlað er að milljónir áhorfenda í Bandaríkjunum hafi fengið Ísland beint inn í stofu til sín en fyrsti þátturinn í sjötta hlutanum var alfarið frá Íslandi.
Þátturinn, sem gerir út á kapphlaup tveggja manna liða um allan heim, hófst hér á landi þar sem liðin áttu að ferðast til hinna ýmsu staða. Fyrsti þátturinn voru rúmar tvær klukkustundir og er þetta ein stærsta landkynning á Íslandi fyrr og síðar.
Magnea Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Bláa Lónsins, sagði í samtali við Víkurfréttir að þau séu nú þegar farin að finna fyrir þessari landkynningu með t.d. aukinni umferð um vef þeirra. Bláa lónið kom mikið við í þáttunum en Magnea telur að þetta sé með stærstu einstöku kynningum sem Bláa Lónið hefur fengið. „Þessi þáttur nær til 70 landa og þess vegna eigum við von á því að heimsóknum í lónið fjölgi í kjölfarið.“ Þetta er þó ekki fyrsta stóra kynningin sem Bláa Lónið fær í bandarísku sjónvarpi því árið 2000 þá var hinn vinsæli þáttur NBC Today Show sendur út frá Bláa Lóninu.
Gaman verður að sjá í febrúar, þegar Stöð 2 hefur sýningar á sjötta hlutanum, hvernig þetta allt saman fór. En frést hefur að nokkrir keppendur hafi villst niður á Hafnargötu í leit sinni að Seljalandsfossi og að keflvíkingum bregði fyrir myndavélina.
Þegar uppi verður staðið þá munu 200 milljónir manna sjá þáttinn en hann er sýndur í 70 löndum um allan heim.
Myndin: Upptökur á The Amazing Race fyrr í sumar við Bláa Lónið VF-mynd: Atli Már Gylfason