Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kapella ljóssins til sölu
Þriðjudagur 21. febrúar 2012 kl. 10:29

Kapella ljóssins til sölu

Þjóðkirkjunni hefur ekki tekist að selja eða leigja Kapellu ljóssins á Ásbrú. Kapellan var auglýst í vikunni sem leið með ýmsum eignum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, svo sem kvikmyndaveri Atlantic Studios, Andrews-leikhúsinu og skotheldri samskiptamiðstöð. Frá þessu var greint í Morgunblaðinu fyrir helgi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Varnarliðið byggði Kapellu ljóssins 1985 og kom þar upp aðstöðu fyrir mörg og ólík trúarbrögð. Kirkjumunir voru fjarlægðir þegar varnarliðið fór og kapellan mun hafa verið afhelguð.


Þjóðkirkjan keypti húsið af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar á árinu 2007. Hugmyndin var að nota aðstöðuna til að þjóna ört vaxandi byggð á gamla varnarsvæðinu en fyrst og fremst fyrir Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar biskups. Hlutverk hennar átti að vera að vinna að rannsóknum og fræðslu í trúarbragðafræði og guðfræði, ekki síst til að auka þekkingu og skilning á mismunandi trúarbrögðum heimsins.


Guðmundur Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, segir í Morgunblaðinu að þessum áformum hafi verið frestað vegna þrengri fjárhags kirkjunnar. Nú er ekki lengur gert ráð fyrir að Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar hafi aðsetur þarna enda er Kapella ljóssins ein þeirra fasteigna sem kirkjuþing 2010 ákvað að bjóða til sölu.


Kirkjan keypti kapelluna ásamt þremur íbúðum í raðhúsum á Vellinum á 155 milljónir. Keilir var með húsið á leigu en kapellan hefur nú staðið auð um tíma. Einhverjar fyrirspurnir hafa borist um leigu á kapellunni og kaup á tveimur íbúðanna en ekkert orðið úr viðskiptum.