Leikfélag Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur

Fréttir

Kanntu að flokka heimilissorp og endurvinnsluefni?
Föstudagur 8. febrúar 2019 kl. 09:31

Kanntu að flokka heimilissorp og endurvinnsluefni?

Fyrir þremur mánuðum fengu íbúar Suðurnesja fyrir utan heimili sitt grænu tunnuna sem er endurvinnslutunna. Tilgangurinn var að þeir byrjuðu að flokka heimilissorp. Fjarlægja plast og pappír frá öðrum úrgangi sem fellur til á heimilum. Gámaþjónustan sér svo um að sækja almennt sorp og endurvinnsluefni sem fara í frekari flokkun í aðalstöðvunum í Hafnarfirði. Heilt yfir gengur heimilum vel að flokka en nú hafa yfir 300 tonn af endurvinnsluefni skilað sér til úrvinnslu frá því í september. Í endurvinnslutunnuna mega fara sex flokkar; dagblöð og tímarit, pappír, sléttur pappi og bylgjupappír, málmumbúðir, plastumbúðir og fernur. Mikilvægt er að skola áður með vatni því hreinleiki skiptir máli.

Við fórum í heimsókn og fengum örnámskeið í flokkun.

Public deli
Public deli

Eru þetta plastumbúðir?

Ingþór Guðmundsson og Líf Lárusdóttir, starfsmenn Gámaþjónustunnar, tóku á móti okkur, fræddu okkur um flokkun og hvernig þekkja má endurvinnsluefnin frá almennu sorpi.

„Þegar þú flokkar plast heima hjá þér þá er alltaf fyrsta spurningin sem þú spyrð þig þessi: „Eru þetta umbúðir?“ Ef svarið er já þá má þetta plast fara í endurvinnslutunnuna. Þetta er einfaldasta leiðin til þess að flokka plast. Ef þú ert með tannbursta, uppþvottabursta, gúmmíhanska, einnota sílikonhanska, plastbleiur eða snjóþotu þá er svarið strax nei. Þetta fer allt beint í almennt sorp, svörtu tunnuna, því þá er ekki um að ræða umbúðir. Ef það hinsvegar er plastbakki utan af matvælum þá má hann flokkast með plasti en fyrst verður að skola matarleifarnar burt því annars geta þær smitað út frá sér. Ef endurvinnsluefnum er blandað saman í poka getur sósa úr einu íláti haft áhrif á allt innihald pokans. Sósa og aðrar matarleifar eyðileggja plastið sem það er flokkað með í poka. Einnota bleiur eru ekki flokkaðar sem plast eða pappír, þær eru almennt sorp. Hingað fáum við stundum pissublautar bleiur og blautklúta í plastpoka með öðru endurvinnsluefni en þá er allt í pokanum ónýtt til endurvinnslu og hefði átt að fara beint í svörtu tunnuna með almennu sorpi. Hreinar og tómar skyrdósir mega fara í plastendurvinnslu. Hreinleiki skiptir alltaf máli,“ segir Ingþór og Líf tekur við og segir okkur frá pappírnum sem má fara í endurvinnslu.

Er þetta pappír?

„Allur pappír má fara í grænu tunnuna; dagblöð, tímarit, almennur ljósritunarpappír og mjólkurfernur. Málmlok mega einnig fara, álþynnur frá skyrdollum og fleira. Best er að skola alla mjólk og vökva úr pappanum, setja til dæmis á hvolf og láta þorna aðeins, þarf samt ekki að vera skraufþurrt. Hreinleiki skiptir aðalmáli hér. Það má til dæmis ekki henda pítsukassa í grænu tunnuna sem inniheldur leifar af pítsunni. Þetta hefur gerst og þá er búið að skemma endurvinnsluefni frá heilu hverfi því þá geta matarleifarnar smitað út frá sér í efnið sem aðrir hafa flokkað samviskusamlega. Þá er hverfið ónýtt því matarleifarnar losna úr kassanum og fara um allt í hólfi bílsins. Restar af súpu mega heldur ekki fara með pappanum. Allar matarleifar þarf að skola burt.“

Ýkt dæmi um hvað getur gerst

„Ímyndum okkur að það sé ágætis veður utandyra. Þú eldaðir kjúkling og bakkinn sem hann kom í er tómur en ekki skolaður nægilega. Þú hentir honum samt í endurvinnslutunnuna, þessa grænu, þú fleygðir einnig mjólkurfernu óskolaðri með í sömu tunnu. Tunnan stendur í fjórtán daga fyrir utan húsið þitt og allt sem hent var í tunnuna er farið að gerjast. Svo kemur þetta til okkar og getur þurft að bíða í að tvær vikur áður en við flokkum efnið úr þessari grænu tunnu. Þegar komið er að flokkun þá er allt innihaldið ónýtt. Þá er efnið ekki hæft til endurvinnslu og því borgar það sig að vanda sig á upphafsstað, það er að segja inni á heimilunum,“ segir Ingþór.

Fólk vinnur við að flokka endurvinnsluefnin

„Það er ágætt að hugsa það þegar við erum að flokka heima hjá okkur að endurvinnsluefnin okkar endar í höndunum á fólki sem starfar hér við færibandið í Gámaþjónustunni. Það eru hendur starfsmanna sem fínflokka efnin að lokum. Fyrst fer það í grófa flokkun í vélum en endar svo hjá þessum starfsmönnum sem eru þakklátir þegar þeir fá vel flokkað frá heimilunum. Hugsum einnig til þeirra sem vinna við þetta,“ segir Líf og brosir.

Gengur vel yfir heildina

„Meirihluti íbúa Suðurnesja er að vanda sig og einnig að standa sig. Við verðum alltaf betri og betri í að flokka. Það er rétt að það komi fram að við erum með tvískipta bíla sem sækja báðar tunnurnar í einu, sitthvort hólf er á bílunum. Það minnkar umhverfisáhrifin að nota einn bíl. Sums staðar er mjög þægilegt að nálgast tunnurnar en við rúllum þeim frá húsinu að bílnum og hellum úr þeim beint ofan í hann. Það er einnig nauðsynlegt að íbúar moki snjónum frá tunnunum og losa um rembihnúta ef einhverjir eru bundnir utan um tunnurnar. Allt þetta auðveldar okkur vinnuna og gerir allt miklu léttara og fljótlegra,“ segir Ingþór að lokum.


Mynd 1:  stærsta myndin

Pappír, málmlok og plastumbúðir mega fara í grænu tunnuna.


Svona slidesmyndir flokkast sem almennt sorp og fara í svörtu tunnuna.

Pissublautar bleyjur, einnota sílikon hanskar og blautklútar mega ekki fara í grænu tunnuna. Þetta flokkast sem almennt sorp.



Líf Lárusdóttir og Ingþór Guðmundsson eru starfsmenn Gámaþjónustunnar.