Kanna hagkvæmni innanlandsflugs frá Keflavíkurflugvelli
Starfsmenn Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, kanna nú hagkvæmni þess að bjóða upp á innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt því sem segir á heimasíðu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) þá á að athuga möguleikan og hagkvæmni þess að flogið verði innanlands með ferðahópa beint frá Keflavíkurflugvelli, óháð því hvort innanlandsflug verði áfram stundað í Vatnsmýrinni í Reykjavík eða ekki. Einnig er Heklunni ætlað að meta afleiðingar þess fyrir Keflavíkurflugvöll ef innanlandsflug myndi leggjast niður í Reykjavík. Frá þessu er greint á vefsíðunni Túristi.is.
Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS og Heklunnar, segir í svari til Túrista að ekki liggi fyrir hversu margir farþegar gætu nýtt sér þennan möguleika. Hún segir upplýsingaöflun standa yfir en vinnunni á að ljúka fyrsta febrúar.
Undanfarin sumur hefur Icelandair boðið upp á beint flug milli Keflavíkur og Akureyrar og verður því haldið áfram á næsta ári. Flogið verður á fimmtudögum og sunnudögum frá miðjum júní og fram til loka ágústmánaðar. Ekki stendur til að bæta við ferðum til Egilsstaðar samkvæmt Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair.