Fréttir

  • Kanadísk björgunarþyrla æfði í Reykjanesfjallgarðinum
    Agusta Westland CH-149 Cormorant björgunarþyrla kanadíska flughersins við æfingar í gærdag. VF-myndir: Hilmar Bragi
  • Kanadísk björgunarþyrla æfði í Reykjanesfjallgarðinum
Laugardagur 13. febrúar 2016 kl. 11:24

Kanadísk björgunarþyrla æfði í Reykjanesfjallgarðinum

Björgunarþyrla kanadíska flughersins hefur verið við æfingar á Íslandi undanfarna daga en um er að ræða Agusta Westland CH-149 Cormorant björgunarþyrlu. Þyrlan er öllu jafna staðsett á Nýfundnalandi og sinnir leit og björgun á Atlantshafi á svæði sem heyrir undir Björgunarmiðstöðina í Halifax (MRCC Halifax) en það svæði liggur að björgunarsvæði Íslands.

Tilgangur heimsóknarinnar er að efla samskipti þyrlusveita landanna og efla getu til að sinna leit og björgun á mótum björgunarsvæðanna. Þá er þetta liður í að bæta getu Íslands í að taka á móti erlendu björgunarliði ef á þyrfti að halda vegna umfangsmikilla björgunaraðgerða.

Síðasta verkefni þyrlunnar á Íslandi var björgunaræfing sem fram fór í Móhálsadal sem er á milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls í Reykjanesfjallgarðinum. Myndatökumönnum Víkurfrétta var boðið að koma með í verkefnið og eru myndirnar með þessari frétt úr leiðangrinum. Nánar verður fjallað um æfinguna í Sjónvarpi Víkurfrétta í næstu viku.

Kanadíska þyrlan æfði með varðskipinu Þór og björgunarsveitum á Austurlandi í vikunni og einnig var hún við æfingar á Langjökli ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Heimsókn þyrlusveitarinnar til Landhelgisgæslunnar undirstrikar það góða samstarf sem Landhelgisgæslan á við þyrlubjörgunarsveit kanadíska flughersins. Samhæfð viðbrögð og upplýsingaskipti eru forsenda þess að vel takist til við stórar björgunaraðgerðir og því eru sameiginlegar æfingar sem þessar afar nauðsynlegar.

















F.V.: Hilmar Bragi Bárðarson myndatökumaður Víkurfrétta, Stewart Wheeler sendiherra Kanada á Íslandi og Sigfús Aðalsteinsson myndatökumaður Víkurfrétta við Agusta Westland CH-149 Cormorant björgunarþyrluna sem við flugum með í dag. Gríðarlega öflugt verkfæri sem hefur verið við æfingar með Landhelgisgæslunni undanfarna viku.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024