Kallar framsetningu gagna sjónarspil
Guðbrandur Einarsson, oddviti A-listans í Reykjanesbæ, kallar það sjónarspil hvernig framsetningu gagna er háttað er varðar eignir Fasteignar ehf. Eignir, sem ekkert sé á bakvið, séu bókfærðar líkt og gert var með viðskiptavildina í bönkunum í því skyni að sýna betri eignarstöðu og búa til eftirspurn.
Þetta kom fram í máli Guðbrandar þegar tekist var á um málefni Fasteignar ehf á bæjarstjórarfundi nú í vikunni. Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi D-listans, hafði bent á að verðmæti þess eignarhlutar sem Reykjanesbæjar ætti í félaginu hefði aukist um helming frá árinu 2003. Eignarhlutur bæjarfélagsins hefði þá verið 525 milljónir en væri nú metin á rúman milljarð. Böðvar sagði rangar þær fullyrðingar að eignir og hlutafé bæjarins væru að brenna upp í félaginu, eins og Ólafur Thordersen, bæjarfulltrúi A-lista hélt fram.
Böðvar benti á að virkur eignarhlutur Reykjanesbæjar væri í raun mun hærri heldur en fram kæmi í gögnum þar sem meðal annars ætti eftir taka inn í reikninginn virkan eignarhlut Íslandsbanka þegar hann hefði byggt upp höfuðstöðvar sínar á Kirkjusandi. Virkur eignarhlutur bæjarins væri í raun 20% í stað 10 prósenta.
Guðbrandur segir að verið sé að búa til eignir sem engar séu í raun og veru, eða „froðueignir“ eins og hann orðaði það í máli sínu.
„Á sínum tíma ákvað Glitnir að selja ákveðinn hlut sinn í Fasteign ehf til byggingaverktaka og við það endurmátu þeir bréfin. Þá skyndilega átti Reykjanesbær orðið meira í Fasteign. Af því að einhver byggingaverktaki ákvað að kaupa eignir af Glitni. Þetta er það sem ég vill kalla froðu og hefur orsakað að búið er að keyra þjóðina á kaf,“ sagði Guðbrandur.
Hann benti á Glitnir hefði sett lóð sína á Kirkjusandi inn í Fasteign og þar með aukið hlut sinn verulega í félaginu. Í ársreikningi Fasteignar væri bent á þá óvissu sem skapast hefði um framkvæmdir á umræddri lóð. Bókfært verð lóðar undir væntanlegar höfuðstöðvar næmi 19,4 milljónum evra í árslok 2008. Það verð byggði á því að höfuðstöðvarnar yrðu reistar og fyrirliggjandi leigusamningi við Fasteign framfylgt. Ef ekki yrði af framkvæmdum gæti það haft veruleg áhrif á mat á bókfærðu verði lóðarinnar sem og eigið fé Fasteignar.
„Þarna er því stór fyrirvari við þessa eign…Í þessum reikningi er miðað við að búið sé að byggja höfuðstöðvarinanr og þær verði nýttar til tekna fyrir Fasteign. En erum að sjá Fasteign hafa tekjur af þessu á næstunni? Þetta er eitt sjónarspilið enn á framsetningu á gögnum,“ sagði Guðbrandur sem vill meina að í ljósi aðstæða sé langur vegur frá að bankinn, sem nú er ríkisbanki, hefji framkvæmdir á lóðinni. Hún sé því svo gott sem verðlaus.
Í ársreikningi Fasteignar benda endurskoðendur sérstaklega á að víxill sé á gjalddaga í maí. Ekki hafi tekist að afla fjár til að greiða af víxlinum, sem mun samkvæmt núgildandi gengi nema um milljarði króna.
Á sama tíma er leitað eftir fjármögnun í áframhaldandi framkvæmdir við Hljómahöllina
---
VFmynd/elg - Fasteign ehf byggir Hljómahöllina. Þar, eins og og víða annars staðar, vantar fjármagn.