Kalla eftir langtímaúrræðum og vilja að ríkisvaldið kaupi upp eignir í Grindavík
Grindvíkingar kalla eftir langtímaúrræðum og vilja að ríkisvaldið kaupi upp eignir í Grindavík í kjölfar þeirra náttúruhamfara sem hafa gengið yfir bæjarfélagið á síðustu dögum, vikum og mánuðum. Þetta er það sem liggur fjölmörgum Grindvíkingum á hjarta og kom skýrt fram á íbúafundi sem Grindavíkurbær stóð fyrir síðdegis í gær, þriðjudag.
„Ef að húsið mitt væri brunnið hefði ég fengið fjárhagslegt sjálfstæði,“ sagði Bryndís Gunnlaugsdóttir, íbúi í Grindavík á fundinum. Páll Valur Björnsson, íbúi í Grindavík, hélt mikla eldmessu og sagði að þeir 115 milljarðar króna sem myndi kosta ríkisvaldið að kaupa upp allar fasteignir í bæjarfélaginu væru smáaurar miðað við hvað Grindavík hefur fært íslensku þjóðarbúi.
Húsfyllir var á íbúafundinum. Settir voru upp stólar fyrir 500 manns og var salurinn þéttsetinn og komust ekki allir að sem vildu. Þá fylgdust þúsundir með fundinum í streymi á netinu.
Það er óhætt að segja að Grindvíkingar hafi verið mjög hreinskilnir á fundinum og fengu þeir sérstakar þakkir fyrir það. Fundurinn hafi verið gott og nauðsynlegt samtal. „Ætlið þið að borga okkur út? Húsið mitt er verðlaust í sigdal. Grindavík er gullkista fyrir íslenskt samfélag. Við höfum skaffað gríðarlegar tekjur í íslenskt samfélag. Það á ekki að vefjast fyrir ríkinu að borga okkur út.“ Þetta eru setningar sem flugu frá bæjarbúum til ráðherra við pallborðið.
Nánar er fjallað um íbúafundinn í nokkrum fréttum hér á vf.is.