Kalka: Eigið fé neikvætt um tæpar 500 milljónir
Tap Kölku nam tæpum 597 milljónum króna á síðasta reikningsári aðallega vegna fjármagnsliða. Eigið fé var neikvætt um 497 milljónir króna, samkvæmt rekstrarreikningi.
Á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á morgun liggur fyrir tillaga þess efnis að bæjarfélagið gangi úr félaginu með sex mánaða fyrirvara. Bæjaryfirvöld telja að stjórn Kölku hafa gengið gegn þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið á aðalfundum Kölku og af sveitarstjórnum á Suðurnesjum.
Í greinargerð með tillögunni segir að í júní á síðasta ári hafi verið lögð tillaga af hálfu stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sem samþykkt var í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Hún gekk út á að stofna hlutafélag um rekstur Kölku og átti félagið að taka við rekstri stöðvarinnar um síðustu áramót. Samþykkt þessi var forsenda þess að Reykjanesbær lagði um 130 milljónir króna fram til reksturs stöðvarinnar á síðasta ári en greiðsla upphæðarinnar var háð því skilyrði að búið væri að ná samstöðu um rekstrarform til framtíðar. Í ágúst 2008 var þessi ákvörðun staðfest á aðalfundi Kölku. Þrátt fyrir ítrekaða eftirfylgni af hálfu Reykjanesbæjar hefur ákvörðuninni ekki verið hrint í framkvæmd, segir í greinargerðinni.
Þá er tekið fram í henni að stjórn Kölku hafi samþykkt tillögu í ágúst í þá veru að leita eftir samstarfi eða sameiningu við önnur sveitarfélög og aðila á almennum markaði um rekstur stöðvarinnar. Á öðrum stjórnarfundi í september hafi verið ákveðið að leita samstarfs við önnur sveitarfélög eða sorpsamlög en um leið hafi verið virt að vettugi samþykkt aðalfundarins að kanna möguleika á samstarfi meðal fyrirtækja á almennum markaði. Telja bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ að stjórn félagsins gagni „enn og aftur gegn eðilegum og lýðræðislega teknum ákvörðunum aðalfundar Kölku“ eins og það er orðað í tillögunni.