Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kalka á leið í söluferli
Fimmtudagur 5. nóvember 2009 kl. 14:06

Kalka á leið í söluferli


Bæjarráð Reykjanesbæjar telur vel koma til greina að gera þjónustusamning við væntanlegan kaupanda að Kölku til næstu 5-10 ára enda verði kostnaður íbúa vegna sorpeyðingar ásættanlegur og sambærilegurvið það sem tíðkast annars staðar á landinu. Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var samhljóma á bæjarráðsfundi í morgun. Sem kunnugt er hefur Reykjanesbær samþykkt að segja sig úr rekstrarfélagi sveitarfélaginna um Kölku með sex mánaða fyrirvara.

Bæjarráð beinir því til stjórnar Kölku að þegar fari fram verðmat á félaginu.  Auk þess sem væntanlegur kaupandi/samstarfsaðili muni einnig fara í gegnum verðmætamat á fyrirtækinu. Því beri að halda undirbúningskostnaði í lágmarki og mikilvægt sé að hraða söluferlinu, segir í bókun bæjaráðs í morgun.

Á síðasta aðalfundi Kölku í lok ágúst var samþykkt að leita eftir áhugasömum aðilum, bæði almennum og opinberum, til samstarfs eða til yfirtöku á rekstri sorpeyðingarstöðvarinnar.

Eftir því sem næst verður komist hefur stjórn Kölku átt viðræður við önnur sorpsamlög um hugsanlega sameiningu en einnig átti að kanna möguleika á að finna fyrirtæki á almennum markaði sem hugsanlega hefðu áhuga á þessum rekstri.

„Stjórn Kölku hefur verið að vinna að þessu og er nú að spyrja sveitarstjórnirnar hvort þær væru tilbúnar til þess að gera langtímasamning við hugsanlegan kaupanda um eyðingu sorps frá íbúum. Okkar svar í bæjarráði var að slíkt kæmi til greina að því gefnu að það væri á hóflegu verði fyrir íbúa og kosnaður ásættanlegur og sambærilegur við það sem tíðkast annars staðar, eins og fram kemur í bókuninni,“ segir Böðvar Jónsson, formaður bæjarrráðs í samtali við VF aðspurður út í málið.

„Vonandi eru einhverjir sem hafa áhuga á slíkum rekstri og eru burðugir til þess að standa að slíkum rekstri og kaupum. Einhverjir hafa sett sig í samband við forsvarsmenn sveitarfélaganna en nauðsynlegt er að auglýsa og hafa það ferli opið og aðgengilegt fyrir alla sem hugsanlega hefðu áhuga þar á. Að sjálfsögðu hefur ekkert verið ákveðið í því sambandi,“ bætti Böðvar við.

Málefni Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja, sem er sameingarfélag sveitarfélaganna um rekstur Kölku, hefur um tíma verið bitbein milli sveitarfélaganna. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa lagt mjög þunga áherslu á breytingar á rekstrarformi sorpeyðingarstöðvarinnar en ekki talið sig frá undirtektir frá hinum sveitarfélögunum.

Reykjanesbær sagði sig nýrverið úr samstarfinu vegna þessa með 6 mánaða fyrirvara og er sá tími nú byrjaður að telja. Finni stjórn Sorpeyðingarstöðvarinnar ekki nýtt rekstrarform innan þess tíma sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar er ásátt um verður félaginu þá væntanlega slitið og skiptaferli sett í gang.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024