Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Kafnaði á sundlaugarbakka vegna græðgi
Mávur með makríl á flugi við Vatnaveröld í Keflavík. Myndin er samsett.
Miðvikudagur 17. ágúst 2016 kl. 12:38

Kafnaði á sundlaugarbakka vegna græðgi

- mávur gerðist of stórtækur í makrílveislu

Mávur dó drottni sínum á bakka sundlaugarinnar í Keflavík um liðna helgi. Dánarorsök var græðgi. Mávurinn kafnaði með stóran makríl í kjaftinum sem honum hafði ekki tekist að sporðrenna.

Sundlaugargestir í Vatnaveröld veittu athygli mávageri yfir sundlauginni síðasta laugardag og töldu víst að þeir væru að sverma fyrir æti í nágrenninu. Stuttu síðar brotlenti mávur á sundlaugarbakkanum og stóð sporður af stórum makríl út úr goggi fuglsins. Mávurinn hafði gerst full stórtækur í æti og reynt að gleypa makríl í heilu lagi. Makríllinn stóð hins vegar fastur í hálsi fuglsins, sem gat enga björg sér veitt.

Mávurinn hafnaði á sundlaugarbakkanum. Sundlaugargestur, sem var að ljúka við sitt 1000 metra sund, snaraði sér upp úr lauginni og greip í sporðinn á makrílnum og dró hann út úr mávinum. „Þetta var heljarstór makríll, svo stór að mávurinn hefði aldrei getað gleypt hann og hefur því kafnað við að reyna að sporðrenna honum,“ segir Ásta Sigurðardóttir, sundlaugargestur, í fésbókarfærslu þar sem hún lýsir atvikinu. Hún var ekki viss í fyrstu hvort mávurinn væri á lífi en hann reyndist steindauður og því ekki ástæða til að reyna munn við gogg blástursaðferðina.

Mávar venja komur sínar reglulega að sundlauginni í Keflavík. Einn mætti þangað á dögunum með svínseyra sem hann nartaði í á bakkanum. Þá slógust mávar um pizzasneið á knattspyrnuvellinum við hlið sundlaugarinnar á meðan annar flaug á brott með hamborgara í brauði.

Mávar hafa gerst nokkuð aðgangsharðir við Keflavíkurhöfn þegar unnið er að löndun á makríl. Þeir ráðast í hópum á makrílkörin og reyna að éta eins mikið og þeir komast yfir áður en körunum er komið í skjól.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024