Kaffitár hlaut starfsmenntaverðlaun
Starfsmenntaverðlaunin 2010 voru afhent í gær. Starfsmenntaverðlaunin eru veitt þeim aðilum sem vinna að framúrskarandi verkefnum í fræðslumálum og starfsmenntun. Kaffitár hlutu verðlaunin í flokki félagasamtaka og einstaklinga fyrir verkefnin „Fræðslustjóri að láni“.
Tilgangur verðlaunanna er að styðja við nýsköpun og framþróun starfsmenntunar á Íslandi ásamt því að vekja athygli á málefninu. Verðlaunin eiga að vera verðlaunahöfum hvatning til áframhaldandi starfa og öðrum til fyrirmyndar á þessu sviði. Verðlaunin voru veitt í þremur flokkum; flokki fyrirtækja, flokki skóla og fræðsluaðila og flokki félagasamtaka og einstaklinga. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands afhenti verðlaunin. Verðlaunagripurinn var unnin eftir merki verðlaunanna, og er tré með skeifulaga laufum, steypt í brons.
Námskeiðaröðin Grænni skógar fékk verðlaun í flokki skóla og fræðsluaðila. Reykjavíkurborg hlaut verðlaunin í flokki fyrirtækja fyrir verkefnið Íslenskuskólinn. Reykjavíkurborg hefur síðan í fyrra staðið fyrir samræmdum íslenskunámskeiðum fyrir borgarstarfsmenn. Við undirbúning skólans var gerð viðamikil rannsókn á stöðu erlendra starfsmanna hjá Reykjavíkurborg árið 2007. Starfsafl og Kaffitár hlutu verðlaunin í flokki félagasamtaka og einstaklinga fyrir verkefnin „Fræðslustjóri að láni“. Verkefnið byggist á því að Starfsafl láni út mannauðsráðgjafa, sérhæfðum í vinnustaðafræðslu og óformlegri menntun, til fyrirtækja í afmarkaðan tíma, fyrirtækjum að kostnaðarlausu.