Kaffitár hlaut kuðunginn
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, veitti Kaffitári í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári.
Kuðungurinn
Kaffitár hlýtur Kuðunginn fyrir öflugt umhverfisstarf fyrirtækisins allt frá stofnun þess árið 1990. Segir meðal annars í rökstuðningi valnefndar að eigendur þess hafi verið brautryðjendur varðandi mengunarvarnir í framleiðslu og umhverfisvottun kaffihúsa auk þess sem þau hafa lagt áherslu á að kaupa hráefni „án krókaleiða“, beint frá þeim bændum sem rækta það. Kaffihús Kaffitárs hafi verið þau fyrstu hér á landi til að fá vottun umhverfismerkisins Svansins árið 2010 og sem ein vinsælasta kaffihúsakeðja landsins hafi fyrirtækið þannig orðið öflugur boðberi umhverfisvænna hátta meðal almennings. Hugað sé að umhverfismálum allt frá hinu smæsta til hins stærsta, hvort sem um sé að ræða borðtuskur sem notaðar séu á kaffihúsunum eða mengunarvörnum kaffibrennslunnar.
Verðlaunagripurinn, Kuðungurinn, sem Kaffitár hlaut, er að þessu sinni eftir listamanninn Bjarna Sigurðsson. Þá öðlast fyrirtækið rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.
Mynd af vef stjórnarráðsins.
Mynd af vef stjórnarráðsins.