Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kafari segir björgun Guðrúnar Gísladóttur illa skipulagða
Föstudagur 10. janúar 2003 kl. 08:36

Kafari segir björgun Guðrúnar Gísladóttur illa skipulagða

Íshús Njarðvíkur hefur frest til þriðjudags til að ljúka við fjármögnun vegna björgunar Guðrúnar Gísladóttur KE-15, sem liggur á 40 metra dýpi við strendur N-Noregs. Annars munu Mengunarvarnir norska ríkisins grípa inn í og láta dæla olíu úr skipinu á kostnað eigenda þess. Kafarafyrirtæki, sem unnið hefur að undirbúningi björgunaraðgerðanna, hefur sagt sig frá verkefinu vegna þess að bankatryggingu vantar fyrir viðbótarkostnaði. Viðbótarfjármögnun mun vera á lokastigi, en kostnaður við björgunina hefur farið talsvert fram úr því sem áætlað var, segir í Morgunblaðinu í dag.Stein-Inge Riise, eigandi Riise Underwater Engineering, segir við Morgunblaðið að fyrirtækið hafi átt að fá bankatryggingu fyrir viðbótarkostnaði fyrir rúmum tveimur vikum, en því hafi verið frestað æ ofan í æ. "Við erum hættir í verkefinu. Það hafa verið fjárhagsleg vandamál og við höfum einnig bent á slæma verkefnastjórn. Verkefninu er illa stýrt og það er illa skipulagt," segir Riise.
Verkefnið hangir á bláþræði
Fyrirtæki hans hafi sent Íshúsi Njarðvíkur reikning upp á þrjár milljónir norskra króna og stærsti hluti þess hafi þegar verið borgaður, enda hafi fyrirtækið bankaábyrgð fyrir 3 milljónum. "Eftir standa um 200.000 krónur norskar sem við erum ekki með ábyrgð fyrir," sagði Riise. Takist viðbótarfjármögnunin muni hann meta það hvort fyrirtækið komi aftur inn í verkefnið. "Auðvitað verðum við að ræða við þá ef þeir vilja meina að þeim hafi tekist að fá skikk á hlutina. Þá verða þeir bara að leggja málið fyrir okkur og við einfaldlega meta það á ný," segir hann.
Riise segir ennfremur við Morgunblaðið að verkefnið hangi á bláþræði. "Aðalmálið er að verkefnið hefur ekki verið fjármagnað nægilega frá byrjun, við rekumst á það aftur og aftur. Við höfum alltaf sagt að verkið tæki lengri tíma en Íshúsið hefur sagt. Þeir bættu ekki við tíma fyrir köfunina fyrr en alveg í lokin á undirbúningnum."
Kafararnir séu enn til taks í Lófóten þar sem Mengunarvarnir norska ríkisins (SFT) hafi borgað þeim fyrir að bíða á staðnum til mánudags svo þeir geti byrjað að undirbúa að fjarlægja olíu úr skipinu ef í ljós komi að Íshús Njarðvíkur geti ekki staðið við verkið.
Henri Bertheussen, verkefnastjóri hjá SFT, segir að ef Íshús Njarðvíkur geti ekki fjármagnað það sem upp á vantar grípi norska ríkið í taumana og láti tæma alla olíu úr skipinu á kostnað eigenda. Fyrirtækið hafi frest þar til á þriðjudag að ljúka fjármögnuninni. "Fjármálavandinn hefur skyggt á verkefnið mjög lengi, það var stöðvað í kjölfar fjármálavanda hinn 20. desember. Veðrið var notað sem ástæða fyrir því að aðgerðum var frestað, en það komu margir fínir dagar eftir það."
Bjartsýnn á að það náist að leysa málið
Ásgeir Logi Ásgeirsson, sem er í forsvari fyrir björgunaraðgerðirnar í Noregi, segist í samtali við Morgunblaðið, bjartsýnn að það náist að fjármagna það sem upp á vantar, unnið sé ötullega að því að svo megi verða. "Við erum að vinna í því að leysa þessi mál og koma verkefninu áfram. Verkefnið er orðið talsvert dýrara en upphaflega var ráð fyrir gert, m.a. vegna tafa. Það segir sig því sjálft að það þarf aukið fjármagn til að klára það og ég vona að það sé að gerast."
Hann gefur lítið fyrir gagnrýni Norðmanna um að verkinu sé illa stjórnað. Það hafi verið til fjármagn til að halda verkinu áfram síðustu dagana fyir jól, verkinu hafi verið frestað þar sem jólin voru að koma og menn fóru heim í jólafrí. Aðspurður hvort verkefninu hafi verið ætlaður of stuttur tími segir hann að menn geti alltaf verið klókir eftir á. Hann segir Íslendingana sem eru í Noregi tilbúna að hefjast handa á ný um leið og þeir fá grænt ljós. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024