Kærður fyrir skjalafals vegna númeraskipta
Lögreglan á Suðurnesjum hafði um helgina afskipti af bifreiðareiganda sem hafði tekið númer af bifreið sem hann átti og sett á aðra bifreið af sams konar tegund sem hann átti einnig. Gallinn var bara sá að fyrrnefnda bifreiðin sem númerin tilheyrðu var grá, hafði verið flutt inn frá Englandi og var með stýrið hæga megin. Hin bifreiðin var rauð, með stýrið vinstra megin. Hún var einnig ótryggð. Eigandinn viðurkenndi að eiga bæði númerið og bifreiðina sem þau voru á en kvaðst koma af fjöllum um ástæðuna fyrir þessum tilfæringum. Honum var tjáð að hann yrði kærður fyrir skjalafals.
Annar ökumaður, sem stöðvaður var, ók réttindalaus á ótryggðri bifreið. Skráningarmerki voru fjarlægð af henni. Þriðji ökumaðurinn ók undir áhrifum kannabisefna, að því er sýnatökur á lögreglustöð staðfestu.