Kæran ekki of seint fram komin
Aðalheiður Jóhannsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í umhverfisrétti segir kæru Landverndar vegna álvers í Helguvík ekki of seint fram komna, eins og forsvarsmenn Norðuráls hafa haldið fram í fjölmiðlum. Þá sé skýrt að samtökin hafi rétt á að kæra. Þetta kemur fram á fréttavefnum Visir.is í morgun.
„Að mínu mati er það rétt hjá Landvernd að í áliti Skipulagsstofnunar frá 4. október er í raun að finna niðurstöðu á þessu tiltekna álitaefni. Stofnunin afgreiðir þetta atriði inni í álitinu og byggir það fyrst og fremst á því að það séu svo miklir óvissuþættir að ekki sé hægt að láta meta þetta saman," segir Aðalheiður
„Meðal annars kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar að stofnunin hafi ekki vitað hvernig átti að leysa úr þessu álitaefni. En það er enginn vafi í mínum huga að í áliti stofnunarinnar leynist kæranleg ákvörðun um þetta tiltekna atriði," segir Aðalheiður í samtali við Visir.is
Bergur Sigurðsson, segir í samtali við MBL, það mikinn misskilning hjá forsvarsmönnum Norðuráls, sem fram hafi komið í Morgunblaðinu á föstudag, að kæran hafi engin áhrif á útgáfu framkvæmdaleyfis. Krafan sem sett er fram í kæru Landverndar er að „álit Skipulagsstofnunar verði ógilt og að fram fari lögformlegt umhverfismat á framkvæmdunum í heild sinni,…“
„Óheimilt er að gefa út framkvæmdaleyfi nema álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir. Álitið liggur fyrir og því var e.t.v. heimilt að gefa leyfið út, þó það sé reyndar vond stjórnsýsla. Fallist ráðherra hins vegar á kröfu Landverndar og ógildi álitið sem hefur að geyma hina kærðu ákvörðun eru forsendur útgáfunnar brostnar,“ hefur MBL eftir Bergi.
Mynd: Bæjarstjórar Reykjanesbæjar og Garðs afhentu Norðuráli starfsleyfið formlega nú fyrir helgi.