Kæra útgáfu byggingarleyfis fyrir Helguvíkurálver
Náttúruverndarsamtök Íslands hafa lagt fram stjórnsýslukæru til Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vegna útgáfu byggingarleyfis fyrir álver í Helguvík. Náttúruverndarsamtökin krefjast þess að framkvæmdaleyfin sem gefin voru út af sveitarstjórnum Reykjanesbæjar og Garðs þann 12. mars. s.l. verði felld úr gildi.
Til bráðabirgða er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar án tafar þar til málið hefur verið til lykta leitt og er vísað í lagagreinar þar að lútandi.
Í kærunni er bent á að Skipulagsstofnun hafi gert þrenns konar fyrirvara í áliti sínu um álver í Helguvík. Í fyrsta lagi varðandi óvissu um orkuöflun, í öðru lagi varðandi orkuflutninga og í þriðja lagi um losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir.
"Ljóst má vera að samningur tveggja fyrirtækja getur ekki skuldbundið landeigendur og sveitarfélög til þess að láta af hendi auðlindir sínar. Enn vísar Hitaveita Suðurnesja til orkulinda sem eru í landi Suðurlinda þrátt fyrir yfirlýsingar talsmenna þess félags um að orkuna standi til að nýta í þeim sveitarfélögum sem lindirnar eiga. Orkusamningur Norðuráls og Hitaveitu Suðurnesja breyta engu um þá óvissu sem fyrir er og því ekki hægt að fallast á framsett rök leyfisveitanda," segir í kærunni þar sem fjallað er um orkuöflunina.
Varðandi orkuflutninga segir í kærunni:
"Tilvísun í samning Norðuráls og Landsnets eru ekki fullnægjandi rök til þess að ganga á svig við alit Skipulagsstofnunar. Samningar þessara tveggja fyrirtækja geta ekki rýrt rétt landeigenda og gera sveitarfélög ekki á nokkurn hátt skuldbudin til þess að breyta sínum skipulagsáætlunum. Sjö sveitarfélög þurfa að breyta sínum skipulagsáætlunum eigi áformin fram að ganga auk þess sem fjöldinn allur af landeigendum gæti lagt stein í götu áformanna. Tilvísun í samning á milli aðila sem í raun hafa lítið um það að segja hvort samningurinn geti náð fram að ganga getur ekki skipt hér sköpum og gera verður ríkari kröfur en svo til röksemdafærslu þegar ganga skal gegn áliti Skipulagsstofnunar,"
Varðandi losundarheimildir segir m.a. í kærunni að "...í ljósi yfirlýsinga utanríkisráðherra og umhverfisráðherra sem vitnað er til að ofan og þeirrar stefnumörkunar ríkisstjórnar Íslands frá 2002 er hæpið að framkvæmdaleyfi fyrir álver í Helguvík standist lög um losun gróðurhúsalofttegunda. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ og Garði verða að bíða úthlutunar losunarkvóta fyrir gróðurhúsalofttegundir."
Efni kærunnar í heild má nálgast á vef Náttúruverndarsamta Íslands: http://www.natturuverndarsamtok.is/