Kadeco semur við Vélaleigu A.Þ. um umhverfisbætur á Stafnesi
Kadeco hefur samið við Vélaleigu A.Þ. (A.Þ.) um að taka að sér lokun og frágang á aflögðum urðunarstað við Stafnes í Sandgerðisbæ. A.Þ. mun loka tveimur haugum, reisa varnargarð til að varna því að sjór nái til hauganna og fjarlægja rusl og snyrta umhverfi aflagðrar fjarskiptamiðstöðvar. Samningurinn gerður í kjölfar útboðs Kadeco þar sem þrettán aðilar buðu í verkið. Tilboð A.Þ. verktaka ehf hljóðaði upp á alls kr. 95.015.000. Eftirlit með verkinu verður í höndum Verkfræðistofu Suðurnesja.
Hluti starfsemi Bandaríkjahers fór fram á Stafnesi. Að loknum framkvæmdum verður búið að hreinsa ummerki um starfsemi hans. Af hálfu Sandgerðisbæjar eru í mótun hugmyndir sem snúa að framtíðarnotkun og skipulagi svæðisins með tilliti til ferðamála og útivistarmöguleika.
Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdarstjóri Kadeco:
„Frágangur við Stafnes er hluti af því verkefni Kadeco að ganga vel frá atvinnusvæðum bandaríkjahers og er þetta með stærri verkefnum Kadeco í ár. Nú þegar hafa verið unnir fjölmargir áfangar er lúta að hreinsun svæða og má segja að með þessu verkefni sér búið að vinna stærsta hlutann af þeim.“
Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri Sandgerðisbæjar:
„Við erum mjög spennt fyrir þessum framkvæmdum þar sem Stafnes verður nú í góðu samræmi við nærumhverfi sitt. Sandgerðisbær er í dag að móta stefnu um framtíðarnýtingu Stafnes með tilliti til útivistar og möguleika í ferðaþjónustu og sjáum við mikil tækifæri í svæðinu. Með endurheimtu þess og malbikun Ósabotnavegar opnast hringleið að mikilli náttúrufegurð og sögulegum stöðum svo sem Þórshöfn, Básendum, Stafnesi og Hvalsnesi“.
Um Kadeco:
Kadeco er þróunarfélag sérhæft í fasteignaþróun, eflingu samkeppnishæfni Reykjaness og eflingu frumkvöðlamenningar á Reykjanesi. Frá árinu 2006 hefur Kadeco unnið að uppbyggingu á Ásbrú, samfélagi frumkvöðla, fræða og atvinnulífs þar sem áður var varnarstöð Nató.
Myndin: Auðunn Þór Almarsson framkvæmdastjóri A.Þ. Vélaleigu og Kjartan Þór Eiríksson framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson