Kadeco: Rafkerfið á vellinum uppfyllir öryggiskröfur
Styr hefur staðið um lagasetningu vegna raflagna á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli þar sem formaður Rafiðnaðarsambands Íslands fordæmdi aðgerðirnar og sagði mikla öryggishættu skapast af því að skipta ekki yfir í íslenska staðla. Aðrir hafa þó fullyrt að engin hætta sé á ferðum og hefur Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, KADECO, gefið frá sér eftirfarandi yfirlýsingu varðandi málið:
Að gefnu tilefni vill Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar koma eftirfarandi á framfæri:
1. Núverandi rafkerfi á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli uppfyllir á ítarlegan hátt allar þær öryggiskröfur sem gerða eru til slíkra kerfa í Bandaríkjunum og víðar. Enginn ágreiningur er um að rafkerfinu verði umbreytt til að það samræmist þeim form- og öryggiskröfum sem gerðar eru til slíkra kerfa á evrópska efnahagssvæðinu.
2. Verkefnið mun unnið í áföngum á næstu þremur árum vegna umfangs þess bæði er varðar kostnað og tíma. Undirbúningur þessa umfangsmikla verkefnis hefur staðið yfir á undanförnum mánuðum og er framkvæmd þegar hafin. Áætlað er að fyrsta áfanga þess verkefnis ljúki um miðjan ágúst. Verkefnið mun unnið af löggiltum fagmönnum, samhliða og í framhaldi af ráðgjöf og umsjón rafmagnsverkfræðinga.
3. Tryggt verður að framkvæmdin sé með þeim hætti að fyllsta öryggis sé gætt og að öryggi notendanna sé eigi lakara en gengur og gerist á Íslandi almennt í tengslum við rafmagn samkvæmt ráðgjöf sérfræðinga.
Loftmynd/Oddgeir Karlsson