Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 4. október 2001 kl. 09:34

K-lykill í þágu geðsjúkra

Kiwanismenn á Suðurnesjum safna þessa dagana fé til stuðnings geðsjúkum með sölu á K-lyklinum. Landssöfnun Kiwanishreyfingarinnar hófst 1. október og nær hámarki 6. október. Frá fimmtudegi til laugardags verður gengið í hús og selt við verslanir og samkomustaði. Verðbólga er engin í Kiwanis og því er K–lykillinn enn seldur á 500 krónur líkt og í síðustu söfnun.
K–lykillinn er seldur í tíunda sinn í ár en Kiwanismenn standa fyrir söfnun sinni þriðja hvert ár. K-lykillinn var fyrst seldur árið 1974 og hefur ágóði af sölunni ávallt runnið til geðverndarmála. Á liðnum árum hafa ýmis málefni notið góðs af sölu K–lykilsins, þ.á m. Geðhjálp, unglingageðdeild við Dalbraut, og Bjarg á Akureyri svo dæmi séu tekin.
Sú nýbreytni verður í söfnuninni í ár að hægt verður að leggja henni lið með því að hringja í sérstök símanúmer og láta tilteknar upphæðir af hendi rakna. Með því að hringja í síma 907 2500 gefa menn 500 kr. en hringi menn í síma 907 2100 gefa menn 1.000 kr.
Að þessu sinni mun andvirði söfnunarinnar renna að stærstum hluta til Klúbbsins Geysis. Að auki rennur hluti til Hringsjár, starfsþjálfunar fatlaðra og áfangaheimilis geðfatlaðra á Akureyri. Klúbburinn Geysir hyggst nota sinn hluta söfnunarfjárins til húsnæðiskaupa, Hringsjá til tækjakaupa, og áfangaheimilið á Akureyri til endurbóta og uppbyggingar.
Klúbburinn Geysir er vettvangur fyrir fólk sem á við eða hefur átt við geðræn veikindi að etja. Geysir er hvorki meðferðarstofnun né endurhæfingarstofnun heldur brú milli stofn-unar og samfélags. Hringsjá er miðstöð starfsþjálfunar fyrir fatlaða. Þar er einstaklingum veitt aðstoð við endurhæfingu til starfs eða náms. Áfangaheimili geðfatlaðra í Álfabyggð á Akureyri hefur verið starfrækt frá 1989. Markmið áfangaheimilisins er að þjálfa einstaklinga út í lífið – að styðja þá til náms eða vinnu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024