Jónína Ágústsdóttir verður skólastjóri Akurskóla
Bæjarráð Reykjanesbæjar ákvað fyrr í dag að ráða Jónínu Ágústsdóttur sem skólastjóra Akurskóla sem á að taka til starfa næsta haust.
Viðtöl við umsækjendur voru unnin í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands en um þau sáu Eiríkur Hermannsson fræðslustjóri, Árni Sigfússon bæjarstjóri og formaður fræðsluráðs og dr. Ingvar Sigurgeirsson. Eiríkur lýsti sig vanhæfan í einu viðtali þar sem umsækjandi var starfsmaður hans. Starfshópurinn lagði fram tillögur sínar fyrir fræðsluráð sem mælti með Jónínu. Fjórir bæjarráðsfulltrúar voru samþykktir ráðningu Jónínu, fulltrúar meirihlutans ásamt Guðbrandi Einarssyni, en Ólafur Thordersen vildi ráða Helga Arnarson í stöðuna. Bókaði Ólafur undrun sína á ráðningu Jónínu, þar eð Helgi hefði meiri reynslu og menntun.
Jónína hefur lokið B.Ed námi við Kennaraháskóla Íslands með stærðfræði og líffræði sem kjörsvið og Dipl. Ed. í stjórnun menntastofnana við sama skóla. Hún stundar áframhaldandi nám við KHÍ í vetur.
Hún hefur starfað í Hjallaskóla og Salaskóla í Kópavogi nú síðast sem umsjónarkennari á yngsta stigi. Hún hefur jafnframt starfað hjá Barnasmiðjunni og við þýðingar og kynningu á námsefni í LEGO sem kennsluefni í raungreinum.
Eiginmaður Jónínu er Logi Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins og eiga þau þrjá drengi á aldrinum 2 - 16 ára.
Ger ráð fyrir að Jónína taki til starfa 1. apríl nk.