Jón Ingi einn af Innkaupamönnum ársins
Jón Ingi Benediktsson innkaupastjóri Reykjanesbæjar var kjörinn einn af þremur Innkaupamönnum ársins 2018 á árlegum innkaupadegi Ríkiskaupa sl. föstudag. Viðurkenningin er veitt fyrir framúrskarandi árangur í hagnýtingu rammasamninga og annarra innkaupaleiða.
Í umsögn Ríkisinnkaupa með verðlaunaafhendingunni kemur fram að Reykjanesbær fái viðurkenningu „fyrir frumkvæði sem sveitarfélagið sýndi við kaup á ritföngum fyrir grunnskólana, sem fram fór í örútboði innan rammasamnings. Í kjölfarið tóku Ríkiskaup við boltanum og buðu þessi kaup út sameiginlega fyrir fjölmörg sveitarfélög í sameiginlegu örútboði.“
Jón Ingi var ráðinn til starfa hjá Reykjanesbæ í febrúar árið 2016 og hefur því gengt starfi innkaupastjóra í tvö ár. Ráðningin var liður í aðgerðaráætlun Reykjanesbæjar í fjármálastjórn bæjarins. Ákveðið var að taka innkaupamálin föstum tökum og ráða innkaupastjóra. Sú ráðning var heilladrjúg fyrir Reykjanesbæ og hefur skilað góðum árangri í hagræðingu og ráðstöfun fjármuna.
Reykjanesbær er aðili að Rammasamningum ríkisins (RS). Með þeirri aðild skuldbindur Reykjanesbær sig til þess að versla innan þeirra, ef varan eða þjónustan er í boði þar.
Hér má lesa nánari upplýsingar um innkaup Reykjanesbæjar og ávinning þeirra fyrir bæjarfélagið af vef bæjarins.
Lilja Ástudóttir innkaupafulltrúi Kópavogsbæjar Kristján Þór Valdimarsson deildarstjóri innkaupadeildar og Landspítalans fengu viðurkenningu sem Innkaupamenn ársins ásamt Jóni Inga. Þetta var í fyrsta sinn sem Ríkiskaup veita viðurkenningar til opinberra aðila vegna framúrskarandi árangurs og vinnubragða við opinber innkaup.