Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Jón Gunnarsson: Samvinna þingmanna mætti vera meiri
Fimmtudagur 21. október 2004 kl. 14:19

Jón Gunnarsson: Samvinna þingmanna mætti vera meiri

Alþingi var sett á dögunum. Töluvert upphlaup varð á þingsetningunni vegna ummæla forseta Alþingis, Halldórs Blöndals, í ræðu sinni þegar nokkrir þingmenn stjórnarandstöðu gengu úr þingsal. Jón Gunnarsson var einn þeirra. „Við stóðum upp til að mótmæla því að forseti hafi misnotað aðstöðu sína eins og hann gerði þarna,” segir Jón m.a. í viðtali við Víkurfréttir. Aðspurður um hvaða þrjú mál hann muni leggja áherslu á að berjast fyrir á þingvetrinum svarar hann. „Samgöngumál, tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og að raunverulegar breytingar verði á kvótakerfinu.” Í viðtalinu ræðir Jón einnig um nýjan forsætisráðherra, samvinnu þingmanna á Suðurnesjum og setuna í fjárlaganefnd.

Hvernig líst þér á komandi þing?
Mér líst nokkuð vel á komandi þing og ég held að forseti þingsins hafi slegið tóninn í þingsetningarræðu sinni sem fór þannig fram að ég ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar stóðum upp og gengum úr þingsal. Við stóðum upp til að mótmæla því að forseti hafi misnotað aðstöðu sína eins og hann gerði þarna.

Heldurðu að þetta verði átakaþing?
Ég held að þetta verði átakaþing að mörgu leyti. Auðvitað eimir af því að við áttum í mjög hatrömmum deilum og átökum varðandi fjölmiðlafrumvarpið á síðasta þingi. Það er nú einu sinni svo þegar menn eru komnir í ákveðinn gír þá halda menn oft í sömu átt og reyndar er margt af því sem ríkisstjórnin er að gera með þeim hætti að við hljótum að bregðast við með gagnrýni.

Halldór Ásgrímsson er nýtekinn við sem forsætisráðherra - telurðu miklar breytingar í vændum?
Ég held satt að segja að það breyti afskaplega litlu. Ég sé ekki alveg hvernig hann á að geta breytt hlutunum á einhvern hátt með ekki sterkari flokk sem hann er með á bak við sig. Hann þarf á samstarfsflokknum að halda og hlýtur nánast alltaf að fara eftir þeirra línu eins og mér finnst Framsóknarflokkurinn hafa gert í þessu stjórnarsamstarfi.

Heldurðu að það skipti máli fyrir Suðurnesin að Halldór sé orðinn forsætisráðherra?
Ég veit það ekki. Auðvitað breytist annað um leið og það er náttúrulega kominn nýr utanríkisráðherra. Mér fannst Halldór alltaf gera alltof lítið af því að halda sambandi við okkur hér suðurfrá varðandi málefni Varnarliðsins. Ég er að vonast til þess og mun leggja á það áherslu inn á þingi að við hér suðurfrá fáum að taka þátt í því sem er að gerast og séum ekki að lesa það í blöðunum, nánast frá degi til dags hvaða þróun er á Keflavíkurflugvelli. Við verðum að vera með í því að fara yfir það hvaða möguleika við eigum og hvernig við bregðumst við þeim ákvörðunum sem eru teknar. Sem utanríkisráðherra fannst mér Halldór Ásgrímsson algjörlega hundsa okkur í þessum efnum.

Á hvaða þrjú mál muntu leggja áherslu á yfirstandandi  þingi?
Nr. 1 Samgöngumál
Við þingmenn þessa kjördæmis eigum að einhenda okkur í það að Reykjanesbrautin verði kláruð. Það er ekki víst að það verði auðveld barátta því það er verið að boða 2 milljarða króna niðurskurð í vegaframkvæmdum á næsta og þar næsta ári. Ég held að allir sjái sem keyra þessa braut í dag að hún á að vera tvöföld alla leið. Það hlýtur að verða sameiginlegt verkefni okkar þingmanna í kjördæminu að fá Reykjanesbrautina kláraða.

Nr. 2 Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga.
Svo við getum haldið áfram að lifa hér á Suðurnesjum við almennilega þjónustu verður að taka á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Við erum að horfa á það hér á Suðurnesjum að við munum ekki geta boðið íbúum upp á sömu þjónustu og verið hefur ef ekki verður gerð leiðrétting á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
Af staðgreiðslunni fá sveitarfélögin ákveðið hámark og ríkið það sem út af stendur. Ég held að við þurfum að horfa til nýrra leiða; að sveitarfélögin séu ekki bara að fá tekjur af launamönnum. Við þurfum líka að fá tekjur af veltusköttum. Af hverju fá sveitarfélögin ekki hluta af bensíngjaldi eða þungaskatti sem dæmi? Partur af vegakerfi landsins eru vegir í sveitarfélögum sem sveitarfélögin sjálf kosta og sjá um viðhald á. Af hverju fá sveitarfélögin ekki hluta af þessu gjaldi sem tekjustofn?

Nr. 3 raunveruleg breyting á fiskveiðistjórnunarkerfinu
Þriðja málið sem skiptir Suðurnesjamenn miklu máli er að ná fram raunverulegum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Tegundir sem eiga ekkert erindi í kvóta, eins og langa, ufsi, keila og skötuselur eru tegundir sem mikið hafa verið fiskaðar hér á Suðurnesjum. Ég held að það myndi skipta okkur verulega miklu máli ef það næðist slík breyting í gegn og við sæjum aftur meira  líf í höfnunum í Sandgerði og hér í Keflavík - bara við þessa einu breytingu.

Hverjar telurðu framtíðarhorfur Suðurnesja vera?
Ég held að Suðurnesin eigi afskaplega góðar horfur til framtíðar því það sem er að gerast hér er sama þróun og er erlendis. Það eru kjarnarnir í kringum stóru borgirnar sem eru að eflast og hafa verið að eflast undanfarin ár. Bæði eru fyrirtæki að leita út úr borgunum og inn í þessar byggðir og eins er fólkið að leitast við að komast út úr stóru borgunum og inn í smærri samfélög í kringum borgirnar. Við sjáum þetta vera að gerast víðar en hér á Suðurnesjum, til dæmis á Árborgarsvæðinu og eins upp á Akranesi. Það er stór kostur fyrir okkur Suðurnesjamenn að þurfa ekki að fara yfir fjallveg eða greiða vegtoll í göng og því tel ég að á næstu árum verði sprenging í íbúamálum hér á Suðurnesjum. Við verðum bara að vera tilbúin til að taka við þeim fjölda sem mun örugglega vilja koma til okkar.

Er samvinna þingmanna kjördæmisins mikil hvað varðar málefni Suðurnesja?
Hún mætti vera mikið betri. Reyndar hefur samvinna þingmanna verið sérstaklega góð í samgöngumálum. Hvað önnur málefni varðar þá er hún alltof lítil. Með minn bakgrunn þar sem ég kem úr sveitarfélagastjórnun og fyrirtækjastjórnun þá held ég að árangurinn gæti verið betri ef samvinna þingmanna væri meiri. En svo komum við náttúrulega að hinu að á fjögurra ára fresti eru verkin lögð í dóm kjósenda og menn eru alltaf að reyna að halda utan um sitt og það veldur því örugglega að þingmenn vinna ekki meira saman en raun ber vitni. Ég er tilbúinn til þess að eiga meira og öflugra samstarf að þessum góðu málum sem við þurfum að vinna að. En það þarf tvo í tangó.

Fyrsta þingmálið sem þú munt vinna að á þinginu?
Næstu daga verður tekin umræða um lækkun virðisaukaskatts á matvöru, en ég er einn flutningsmanna lagafrumvarps um það mál.  Ég vona að aðrir þingmenn taki málinu vela þar sem ég tel nauðsynlegt að okkur takist að lækka þennan skatt úr 14% í 7% og stuðla þannig að kjarabótum fyrir alla.
Fyrir áramót mun að öðru leyti mestur tími minn eins og í fyrra fara í störf fjárlaganefndar þar sem ég sit. Það er nánast fullt starf að vera bara í fjárlaganefnd meðan vinnan við fjárlagafrumvarp næsta árs fer fram. Það eru fundir á hverjum einasta degi sem byrja klukkan 8:30 á morgnana og þeir standa fram að þingfundi. Fyrir fjárlaganefnd liggja mörg góð erindi frá Suðurnesjum þar sem farið er fram á stuðning ríkisins og þessi erindi bera því glögg merki að mikil gróska er á svæðinu í fjölmörgum málaflokkum.  Mikilvægt er að tryggja m.a. heilbrigðis - og menntamálum á Suðurnesjum næga fjármuni til að stofnanir okkar geti veitt þá þjónustu sem við væntum og verið þannig einn af þeim seglum sem við þurfum til að vaxa til framtíðar.  Fjárlögin taka því  mestan tíma fram að áramótum en síðan er ég með ýmislegt handraðanum sem ég mun kynna síðar þegar nær dregur framlagningu á Alþingi.  Verkefnaleysi kvíði ég ekki.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024