Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Jón Fanndal tilnefndur skyndihjálparmaður ársins 2008
Miðvikudagur 18. febrúar 2009 kl. 08:18

Jón Fanndal tilnefndur skyndihjálparmaður ársins 2008



Jón Fanndal Bjarnþórsson, 33 ára pípulagningameistari, hlaut tilnefningu sem skyndihjálpamaður ársins 2008 fyrir að bjarga Gabríel 2 ára dreng,  sem fékk hitakrampa þann 30. desember 2008.
Grindavíkurdeild Rauða Kross Íslands afhenti, í því tilefni og í tengslum við skyndihjálpardaginn, Jóni Fanndal viðurkenningarskjal og skyndihjálpartösku. Fjölskylda Gabríels fékk einnig skyndihjálpartösku að gjöf.

Málsatvik voru þau að Gabríel var búinn að vera veikur en var á batavegi. Þegar hann var nýkominn úr baði stóð í honum vínber sem mamma hans náði að losa. Í beinu framhaldi dettur Gabríel út og fer að kippast til. Mamma Gabríels kallaði á Daníel 12 ára son sinn og biður hann að sækja hjálp. Daníel hleypur út en Jón Fanndal var þá út á bílaplani og kom hlaupandi inn. Á þessum tímapunkti var Gabríel hættur að anda. Jón byrjar strax að blása í hann og hnoðaði nokkrum sinnum og heldur því áfram þar til sjúkraflutningamenn koma á staðinn eftir u.þ.b.10-15 mín. Jón hljóp svo með drenginn út í sjúkrabílinn og hjálpaði til við að sinna stráknum aftan í bílnum þangað til læknir kom í bílinn á gatnamótum Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar. Jón fylgdi stráknum til Reykjavíkur. Alla leiðina var ástand drengsins mjög tvísýnt, hann virtist detta inn og út. Drengurinn lifði þetta af og var mjög fljótur að jafna sig eftir að hann fékk viðeigandi lyf. Eftir miklar rannsóknir kom í ljós að þetta var sterkur hitakrampi og ef Jón hefði ekki brugðist svona við hefði getað farið illa.

Móðir Gabríels var í miklu áfalli og gat lítið sem ekkert gert á meðan á björgunartilraununum stóð. Daníel bróðir Gabríels stóð sig eins og hetja og náði í aðstoð og hringdi í Neyðarlínuna.
Inga Maja, eiginkona Jóns, kom einnig á vettvang og reyndi að róa móður Gabríels en á meðan passaði Sigríður Emma, 4 ára dóttir Jóns og Ingu Maju, litlu systur sína 1 mánaða í uþb. 15 mínútur og stóð sig einnig eins og hetja.

Jón Fanndal er áhuga slökkviliðsmaður og hefur tekið nokkur skyndihjálparnámskeið í tengslum við það starf. Hann hefur einnig hlotið þjálfun í skyndihjálp hjá Slysavarnaskóla sjómanna.

Jón segir það ótrúlega góða tilfinningu að koma öðrum til hjálpar þegar vel gengur. Líðan Gabríels er góð í dag. Hann var í sólarhring inn á spítala en hann var í nokkra daga að jafna sig.
----

Mynd: Guðfinna Bogadóttir, formaður deildarinnar afhendir Jóni Fanndal viðurkenningarskjal

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024