Jón Böðvarsson látinn
Jón Böðvarsson, fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja og ritstjóri Iðnsögu Íslendinga, lést á Landspítalanum í gær. Hann var fæddur 2. maí 1930.
Jón Böðvarsson lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1951. Hann lauk cand.mag prófi frá Háskóla Íslands árið 1964 og prófi í uppeldis- og kennslufræðum frá sama skóla árið 1973.
Jón Böðvarsson var skólameistari í FS frá stofnun skólans 1976 til ársins 1984 og ritstjóri Iðnsögu Íslands 1985 til 1986. Eftir Jón liggja margar kennslubækur, handbækur og ljóðabók. Þá bjó hann til fornsögur til skólaútgáfu.
Viðtalsbók við Jón Böðvarsson, rituð af Guðrúnu Guðlaugsdóttur kom út í fyrra og ber heitið „Sá á skjöld hvítan“.
Jón kvæntist Guðrúnu Erlu Björgvinsdóttur, kennara og fyrrverandi aðstoðarskólastjóra. Sonur þeirra er Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar. Stjúpsonur Jóns er Björgvin Jónsson, hæstaréttalögmaður og skákmeistari. Börn Jóns með Vilhelmínu S. Vilhjálmsdóttur eru Sigríður kennari og rekstrarfræðingur og Ásthildur tækniteiknari.
Á myndinni að neðan má sjá Jón með Ingólfi Halldórssyni, þáverandi aðstoðarskólastjóra og Gunnari Sveinssyni, formanni stjórnar FS við tertuskurð á 10 ára afmæli skólans. Myndin er úr gömlu safni VF.