Jólaverslunin í Reykjanesbæ: Gaman að sjá bæjarstjórann ganga á milli verslana
Sigurður Björgvins í K-sport segir desember hafa verið mjög skemmtilegan.
„Jólasalan gekk glimrandi vel og ég fékk m.a. fólk úr Grindavík og Vogum sem vildi kaupa af mér í stað þess að fara til Reykjavíkur. Það hafði það einnig á orði að við ættum að standa betur saman Suðurnesin sem samfélag,“ sagði Sigurður Björgvinsson í K-sport.
Sigurður segir að þessi jólamánuður hafi verið sá besti í mörg ár. „Það var mjög gaman að vera í versluninni í desember og það eru mörg ár síðan þar var. Það var líka skemmtilegt að sjá bæjarstjórann ganga á milli verslana. Hann gaf sér tíma til að spjalla við okkur og tók púlsinn á jólaversluninni í Reykjanesbæ. Vonandi er þetta bara byrjunin á einhverju verulega góðu, ekki bara hjá verslunum á svæðinu heldur íþróttafélögunum, leikfélögum og þjónustufyrirtækjum, segir Sigurður Björgvinsson, eigandi K-sport.