Jólasorpið flæðir úr nýjum tunnum!
Þeir eru ennþá til sem vilja frekar gömlu góðu svörtu sorppokana í stað nýju tunnanna sem dreift var í haust um öll Suðurnes. Ástandið við eitt af fjölbýlishúsum Keflavíkur var því vatn á myllu tunnuandstæðings sem setti sig í samband við ljósmyndara Víkurfrétta í dag.Víst verður þetta að kallast sorpblaðamennska að fjalla um þessi mál. Það fór hins vegar ekki framhjá nokkrum manni að ástandið við tunnurnar var vægast sagt skrautlegt. Jólasorpið flæddi upp úr öllum tunnunum við húsið en tunnur íbúanna í Stóru blokkinni svokölluðu á horni Faxabrautar og Sólvallagötu eru á tveimur stöðum. Annars vegar eru þær undir gafli spennistöðvar við Sólvallagötu og hins vegar á bakvið gömlu Kaupfélagsverslunina við Faxabraut. Allar tunnurnar voru yfirfullar og pokar á jörðinni við tunnurnar. Síðdegis sá hins vegar einhver sóma sinn í að hreinsa upp allt ruslið og setja í gömlu góðu svörtu pokana. Starfsmenn Njarðtaks munu losa tunnurnar á morgun, sunnudag, samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta.