-Björgvin Pálsson frá Hólshúsum í Sandgerði í jólaviðtali en hann verður brátt níræður.
Björgvin Pálsson í Sandgerði fagnar níutíu ára afmæli þann 29. desember. Björgvin eða Beggi eins og hann er jafnan kallaður er heimakær maður og hann man tímana tvenna. Hann man eftir spænsku veikinni sem herjaði á íslendinga árið 1918 og í viðtali við jólablað Víkurfrétta rifjar Beggi upp jólin frá því hann var strákur og mannlífið í Sandgerði á þessum árum. Ekki má gleyma pólitíkinni, en Beggi hefur verið gallharður sjálfstæðismaður í 78 ár eða frá því hann var 12 ára gamall. Beggi ólst upp í Hólshúsum rétt við Bæjarsker sunnan við Sandgerði.
„Síðasta verkið í jólaundirbúningnum var að lóga jólarollunni en henni var alltaf slátrað daginn fyrir Þorláksmessu. Slátrið var síðan gert á Þorlák,“ segir Beggi en á aðfangadag áttu allir að vera komnir í sparifötin klukkan 6. „Við vorum búnir að taka til hey til að gefa ánum á aðfangadag og jóladag. Eftir að við höfðum borðað jólalambið og kjötsúpuna á aðfangadag þá las pabbi húslestur fyrir okkur. Prestarnir tóku til efni í bók og síðan var valið úr henni það sem lesa átti.“
Kerti og spil Gjafirnar sem gefnar voru á aðfangadag á þessum árum voru kerti og spil að sögn Begga. „Það mátti aldrei opna spilakassann fyrr en á jóladag því það mátti ekki spila á aðfangadag,“ segir Beggi brosandi og þegar hann er spurður um jólatré í þessa daga verða augu hans dreymandi. „Pabbi smíðaði jólatré, málaði það og setti kerti á greinarnar. Þetta varð ofsalega fallegt þegar búið var að kveikja á kertunum,“ segir Beggi en krakkana var farið að hlakka til jólanna í nóvember og allt jólahaldið var mjög hátíðlegt.
Jólaballið spennandi Á annan í jólum var haldið jólaball fyrir börnin og segir Beggi að spilað hafi verið á harmonikku. „Það var gengið í kringum jólatréð og jólalögin sungin. Já, biddu fyrir þér hvað okkur krökkunum þótti þetta gaman,“ segir Beggi en það voru kennarar í Sandgerði sem stóðu fyrir jólaballinu. Í seinni tíð fór fjölskyldan oftast til messu á annan í jólum í Hvalsneskirkju en þau voru í um klukkutíma að ganga frá Hólshúsum.
Jólaljós á jólanótt Sú hefð viðgekkst í Hólshúsum að á jólanótt var kveikt á ljósi í hverju herbergi. „Pabbi heitinn tók alltaf glasið af lugtunum og þvoði. Síðan kom hann fyrir ljósi í hverju herbergi og hann fór meira að segja með ljós í fjósið til að lýsa það upp. Þetta fannst okkur krökkunum mjög hátíðlegt,“ segir hann en á jóladagskvöldið var oft spilað fram undir morgun. „Við spiluðum oft svokallað Púkk og það var þrælgaman. Öll fjölskyldan tók þátt í því.“
Fóru að vinna snemma Beggi segir að það hafi verið gott að alast upp í Sandgerði og það hafi verið nóg fyrir krakkana að gera. En vinnan tók fljótt við af leiknum. „Það var eins gott og það gat verið. Krakkarnir gerðu ýmislegt en á sumrin fór maður að vinna um leið og maður loftaði hrífunni. Þá þótti sjálfsagt mál að krakkarnir færu að vinna um leið og þeir gætu,“ segir hann en helstu leikirnir sem krakkarnir voru í á þessum tíma voru feluleikir, útilegumannaleikir og kýlibolti sem var mjög vinsæll að sögn Begga.
Bóndi eða sjómaður Skólaganga krakka á þessum árum voru fjögur ár. Krakkarnir hófu nám 10 ára gamlir og þeir þurftu að vera læsir og kunna hrafl í margföldunartöflunni. „Ég man að fyrsta veturinn í skólanum þá var kvenmaður kennari. Við bárum takmarkalausa virðingu fyrir henni. Maður tók eftir því að þegar hún fór að draga peysuna sína saman að ofan þá átti maður von á ofanígjöf. Þegar henni líkaði ekki eitthvað þá roðnaði alltaf blettur á hálsinum á henni. En við stríddum henni ekki,“ segir Beggi sposkur á svip en áhugamál krakka á þessum árum voru margvísleg og framtíðardraumarnir hjá drengjum snerust fyrsti og fremst um það að verða bóndi eða sjómaður.
Dró félaga sína um borð Beggi var 19 ára gamall þegar hann fór fyrst á sjóinn. Hann rerir á bátnum Frans frá Keflavík - 10 tonna línubáti. „Þar náði ég tveimur félögum mínum úr sjónum. Við vorum að draga línuna og ég var bakborðsmegin að ganga frá bala þegar báturinn lagðist á stjórnborðshliðina. Félagar mínir voru á goggnum og þeir fóru út í sjó. Þeir voru nú vel syndir og komust þannig að borðstokknum og það var auðvelt fyrir mig að draga þá inn,“ segir hann og gerir lítið úr björguninni.
Tekið í nefið í 65 ár „Ég hef hvergi viljað annars staðar vera. Hér líður mér best,“ segir Beggi en hann prófaði að búa einn vetur á Torfastöðum í Biskubstungum sem vinnumaður. „Mér hefur aldrei leiðst jafndjöfullega. Ég þreifst ekki og ég hríðhoraðist. Þegar ég hef verið að fara erlendis og það hefur komið nokkrum sinnum fyrir þá hef ég viljað fara heim eftir svona hálfan mánuð. Þá hef ég verið búinn að fá nóg,“ segir Beggi og fær sér í íslenskt neftóbak í nefið en það hefur hann gert síðan hann var 25 ára gamall.
57 ár í kirkjukór Hvalsneskirkju Fáir hafa verið jafn lengi í kór og Beggi. Hann hefur verið í Kirkjukór Hvalsneskirkju, Karlakór Keflavíkur og Karlakór Miðnesinga. „Mér var sagt það í fréttum þegar ég varð áttræður að ég væri búinn að syngja í kirkjukór Hvalsneskirkju í 50 ár og síðan eru 10 ár. En það eru þrjú ár síðan ég hætti,“ segir Beggi en hann var í 57 ár í kirkjukórnum. „Ég hef haft gaman af því að syngja – hefði annars ekki verið í þessu. Ætli ég hafi ekki verið í nokkra áratugi í KarlakórKeflavíkur. Það má eiginlega segja að það hafi verið mitt helsta áhugamál – það var oft svo lítið að gera á kvöldin og þá var gott að komast á æfingu,“ segir hann en prestarnir sem Beggi man eftir úr Hvalsneskirkju eru fjórir. „Fyrstur var séra Friðrik Rafnar, þá séra Eiríkur Brynjólfsson, séra Guðmundur Guðmundsson og síðan séra Hjörtur Magni. Ég söng fyrir þá alla nema séra Friðrik.“
Skoðanir á kvótakerfinu Beggi hefur skoðanir á mörgu og kvótakerfið er þar á meðal. „Ég skil sjómennina vel og allt það. En ef þessi kvóti hefði ekki verið settu á þá væri enginn fiskur - ofveiðin væri slík,“ segir hann og bætir við. „Ef ég myndi nú hitta Árna Mat?hiesen sem ég geri nú tæpast úr þessu þá myndi ég segja honum að það ætti að banna netin,“ segir Beggi en hann starfaði hjá Miðnesi í SandgerðI í rúm 30 ár. Í símaskránni er Beggi titlaður verkamaður.
Les ekki minningargreinar eða um pólitík Dagurinn hjá Begga fer í bóklestur og sjónvarspsgláp eins og hann orðar það. Hann les mikið og situr þá iðulega við eldhúsborðið heima hjá sér í þjónustuíbúðum aldraðra Miðhúsum í Sandgerði. Hann hefur verið áskrifandi að Morgunblaðinu um árabil. „Ég les nú ekki mikið í Mogganum – aldrei pólitískar greinar og aldrei minningargreinar. Ég hef gaman af því að horfa á útsendingar frá alþingi – en ég fæ mig ekki til að lesa leiðindagreinar um pólitík í Morgunblaðinu. Það er mannskemmandi,“ segir Beggi sem hlær oft að stjórnarandstöðunni. „Ég hef oft gaman af því að sjá þegar stjórnarandstaðan mótmælir öllum málum, en kemur ekki með neinar lausnir í staðinn. Það er bara verið á móti - til að vera á móti. Mér finnast stjórnarliðar taka alltof mjúklega á Össuri Skarphéðinssyni - þeir ættu að taka miklu harðar á kjaftablöðrunni í honum,“ segir hann brosandi.
Sjálfstæðismaður í 78 ár „Ég er búinn að vera Sjálfstæðismaður síðan ég var 12 ára gamall – og því man ég eftir sem ég lifi,“ segir Beggi um það hvernig hann varð sjálfstæðismaður. „Þegar við vorum 12 strákarnir þá stálumst við einu sinni á þingmálafund í samkomuhúsinu. Þar voru Ólafur heitinn Thors frá Sjálfstæðisflokki og Guðbrandur Jónsson úr Alþýðuflokknum, flugmælskir báðir. Ég var alveg í skýjunum með kallinn hann Ólaf – hann muldi Guðbrand niður á þessum fundi og ég hef verið sjálfstæðismaður síðan,“ segir hann brosandi.
Heima um jólin Beggi ætlar sér að eyða jólunum heima enda heimakær eins og fram hefur komið. „Ég hef einu sinni verið að heiman um jólin og það er aumasti tími sem ég hef lifað. Ég ætla bara að vera hér í rólegheitum og hafa það gott. Þannig líður mér best og þannig vil ég hafa það.“
Eftir Jóhannes Kr. Kristjánsson – [email protected]
Karlakór Miðnesinga, en Beggi er lengst til vinstri í aftari röð.
Gömul fjölskyldumynd úr Hólshúsum. Aftari röð frá vinstri: Fjóla, Beggi, Páll, Margrét. Fremri röð frá vinstri: Helga Pálsdóttir móðir Begga, Sveinn, Páll Pálsson faðir Begga.
|