Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Jólakveðja frá bæjarstjóra
Þriðjudagur 27. desember 2011 kl. 11:18

Jólakveðja frá bæjarstjóra

Á vefsíðu Reykjanesbæjar skrifar Árni Sigfússon stutta jólakveðju þar sem hann stiklar á stóru um ástandið á Suðurnesjum um þessar mundir. Hann fjallar m.a. um æskuna í Reykjanesbæ sem skarar framúr á mörgum sviðum og einnig talar hann um ný tækifæri á atvinnumarkaði hér á svæðinu. Pistil Árna má lesa hér að neðan.

„Í framtíðarsýn Reykjanesbæjar kemur fram sú bjargfasta trú að það sé sameiginlegt hlutverk okkar sem hér búum að stuðla að hamingju og heilbrigði einstaklinganna, að þeir nái að þroska hæfileika sína, hafa sterka sjálfsmynd og láti drauma sína rætast. Ekki síst viljum við skapa börnum okkar bestu tækifæri til að rækta hamingju og heilbrigði, afla sér góðrar menntunar og framtíðarstarfa.
Við erum afar stolt af börnunum okkar sem skara framúr í íþróttum, námsárangri og hollum lifnaðarháttum. Nú sem fyrr mun Reykjanesbær standa vörð um grunnþjónustu við bæjarbúa og leggja áfram áherslu á verkefni sem geta stuðlað að heilbrigði þeirra og hamingju. Bæjarbúar búa að uppbyggingu síðustu ára í Reykjanesbæ meðal annars í leik- og grunnskólum og er aðstaða og aðbúnaður skólanna eins og best verður á kosið.

Skynsöm bjartsýni er mikilvæg því á Reykjanesi eru sterk tækifæri í atvinnulífi sem geta einnig nýst allri þjóðinni til framdráttar. Atvinnuleysi hefur verið hátt á Suðurnesjum og margir bíða eftir að sjá atvinnuverkefnin koma fram í vel launuðum nýjum störfum. Það er von mín að með vorinu fari mörg verkefni á fulla ferð, s.s. bygging kísilvers, álvers og gagnavers, fiskeldi á Reykjanesi og ferþajónusta. Mikilvægt er að halda virkni sinni þegar á móti blæs á vinnumarkaði og mikilvægt að nota tímann til að byggja sig upp og vera tilbúinn að mæta þessum nýjum tækifærum þegar þau koma á nýju ári.

Jólin eru tími þakkargjörðar. Við minnumst fæðingar frelsarans og þeirrar lífssýnar sem hann vísar til. Við hlúum að hvort öðru, styðjum og styrkjum hvort annað til góðra verka.“


Ég óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári!
Árni Sigfússon bæjarstjóri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024