Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Jólabarnið fæddist í heimahúsi
Miðvikudagur 28. desember 2011 kl. 16:04

Jólabarnið fæddist í heimahúsi

Jólabarnið á Suðurnesjum þetta árið var drengur sem kom í heiminn á jóladag við Lágseylu í Innri-Njarðvík. Það sem var kannski frekar óvanalegt við þessa fæðingu var að hún fór fram í heimahúsi en bæði móður og barni heilsast ákaflega vel. Hjónin Andri Þór Arinbjörnsson og Jóna Björg Jónsdóttir eiga tvö börn fyrir en þau eru bæði fædd á Landspítalanum. Þessi möguleiki kom upp um að fæða í heimahúsi mjög snemma á meðgöngunni og tóku þau hjónin ákvörðun um að svo yrði eftir að hafa ráðlagt sig við ljósmóður sína, auk þess sem Jóna er hjúkrunarfræðingur og hún hafði lesið sér til um málið. Heimafæðingar eru aðeins um 2% af fæðingum á Íslandi.

„Þetta var ofsalega huggulegt og gekk alveg rosalega vel,“ sagði nýbökuð móðirin í samtali við Víkurfréttir. „Það var mjög rómantískt og yndislegt að vera bara hérna heima á jólanótt, jafnvel þótt við hefðum verið með fólk í mat á aðfangadag,“ en hríðirnar hjá Jónu hófust af alvöru eftir að búið var að taka upp pakka og ganga frá eftir jólamatinn og gestirnir á bak og burt. Daginn eftir, eða um klukkan 11 um morguninn var svo hraustur og myndarlegur drengur kominn í heiminn. „Hann fæddist í baðkarinu hérna heima hjá okkur en við erum með stórt og rúmgott bað. Vegna þess að u.þ.b. 90% af heimafæðingum eru í vatni þá er yfirleitt notuð sérstök fæðingarlaug en þar sem við erum með stórt baðkar gátum við notað það í staðinn. Ljósmóðirin okkar, Steina Þórey var hjá okkur nánast alla nóttina og stóð sig alveg frábærlega,“ segir Jóna.

Hún segist hiklaust mæla með heimafæðingu fyrir verðandi mæður. „Ég mæli með að verðandi mæður íhugi heimafæðingu sem valkost, ef þær eru hraustar og engin áhættumeðganga á ferð. Einn af stórum kostum heimafæðingar er samfella í þjónustu, þ.e. sama ljósmóðirin fylgir manni í mæðravernd, fæðingu og sængurlegu. Þannig myndast góð tengsl við ljósmóðurina“.

Hjónin eiga fyrir tvö börn eins og áður segir, fjögurra ára stelpu og sjö ára strák. Börnin urðu lítið var við það sem gekk á á jóladag en þó vaknaði strákurinn um nóttina. „Hann kippti sér ekkert upp við það að sjá mig í baðinu og ljósmóðurina mér við hlið, hann fór bara aftur að sofa. Amma þeirra kom svo að sækja þau snemma um morguninn og hún sagði börnunum að vinkona mín væri að heimsækja mig og spjalla við mig á meðan ég væri í baðinu, þeim fannst það bara alveg sjálfsagt og lítið að kippa sér upp við það,“ sagði Jóna stálslegin og hamingjusöm með tveggja daga gamalt jólabarnið í fanginu.



Á meðfylgjandi myndum má sjá fjölskylduna samankomna og stóru systkinin þau Ásta og Tómas Ari fengu að halda á litla bróður

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024