Jóel hlaut styrk til náms í Háskóla Íslands
Tuttugu og sex afburðanemendur sem hefja nám í Háskóla Íslands næsta haust fengu í dag afhenta styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Nemendurnir eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi. Hver styrkur nemur 300.000 krónum auk niðurfellingar skráningargjalds sem er 60.000 krónur. Heildarupphæð styrkjanna er því rúmlega 9,3 milljónir króna. Styrkirnir voru afhentir á Háskólatorgi við hátíðlega athöfn.
Meðal styrkhafa var Jóel Rósinkrans Kristjánsson, dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja um síðustu áramót. Hann hlaut við það tilefni fjölmargar viðurkenningar fyrir góðan árangur í mörgum greinum. Jóel leggur stund á píanónám. Hann hyggur á nám í viðskiptafræði í haust.
Alls bárust 77 umsóknir um þá styrki sem auglýstir voru frá framúrskarandi nemendum og því ljóst að samkeppnin var afar hörð. Ákveðið var að úthluta 26 styrkjum úr sjóðnum í ár og hafa þeir aldrei verið fleiri. Af þeim 26 tilvonandi nemendum Háskóla Íslands sem hljóta styrk úr sjóðnum í ár voru 13 dúxar og sjö semidúxar í framhaldsskólum sínum síðustu tvö skólaár. Háskóla Íslands er mikill fengur að slíku afreksfólki og býður það hjartanlega velkomið til náms.
Við val á styrkhöfum var litið til afburðaárangurs á stúdentsprófi en einnig voru önnur sjónarmið lögð til grundvallar, svo sem virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangur á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum. Þá ákvað stjórn sjóðsins í ár að úthluta allt að þremur styrkjum til nýnema sem sýnt hafa sérstakar framfarir í námi eða góðan námsárangur þrátt fyrir sérstakar eða erfiðar aðstæður. Styrkhafahópurinn er því afar fjölbreyttur og koma styrkþegar víða að af landinu.