Játaði tvö bankarán
Nítján ára piltur úr Keflavík játaði í Héraðsdómi Reykjaness í gær að hafa framið tvo bankarán fyrr á árinu; það fyrra í Hafnarfirði 1. apríl og það síðara í Grindavík 5. júní. Eftir ránið í Sparisjóði Hafnarfjarðar tók það lögreglu nokkurn tíma að finna ræningjann. Eftir að hann var tekinn vildi hann ekki gangast við glæpnum fyrr en vika var liðin frá ráninu. Þá mun hann hafa verið búinn að koma hluta ránsfengsins í lóg. Þegar pilturinn rændi Landsbankann í Grindavík náðist hann á leið út úr bænum. Hann hafði þá losað sig við fenginn en játaði þegar lögregla gekk á hann. Peningarnir úr bankanum fundust síðar við vegarkantinn. Mun mesti hluti þýfisins úr ránunum tveimur þannig hafa fundist. Hinn meinti bankaræningi, sem hélt á hnífi í báðum ránunum, hefur verið frjáls ferða sinna frá því 10. júní. Búast má við dómi í málinu innan fjögurra vikna, en þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.