Játaði framleiðslu og sölu fíkniefna
Umtalsvert magn fíkniefna og stera fannst um síðustu helgi við húsleit lögreglunnar á Suðurnesjum að fengnum dómsúrskurði. Rúmlega tvítugur karlmaður var handtekinn og játaði hann framleiðslu og sölu fíkniefna. Um var að ræða kannabisefni sem hann hafði ræktað, unnið til neyslu og búið um í söluumbúðum. Efnin voru á nokkrum stöðum í húsnæðinu.
Þá fundu lögreglumenn um 60 töflur í pilluboxi sem maðurinn kvað vera stera.
Hann afsalaði sér efnunum og áhöldunum sem notuð voru við fíkniefnaframleiðsluna til eyðingar.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.