Jarðvélar fá frest til áramóta
Vegagerðin hefur átt fundi með stjórnendum og eigendum Jarðvéla og gefið þeim frest til áramóta að gera grein fyrir því hvernig endurfjármögnun fyrirtækisins verði tryggð, þannig að það geti haldið áfram verkinu við tvöföldun Reykjanessbrautar, samvæmt því sem fram kom í kvöldfréttum RUV í gær.
Komið hefur fram í fréttum að starfsmenn Jarðvéla hafa að undanförnu átt í erfiðleikum með að fá laun sín greidd hjá fyrirtækinu og hefur á þriðja tug þeirra leitað til Eflingar vegna þessa. Hafa þeir flestir lagt niður störf að mestu eða leitað sér atvinnu annars staðar. Vinna við tvöföldun Reykjanesbrautar liggur niðrið að mestu leyti.
Í kvöldfréttum RÚV í gær var rakin gjaldþrota- og vanskilasaga eigenda Jarðvéla. Um 20 vanskilamál munu verða skráð á fyrirtækið á þessu ári. Stjórnarformaðurinn, Vilhjálmur Eyjólfsson, var stjórnarformaður Stapaverks, sem varð gjaldþrota árið 1993 og stofnandi Súlna, sem varð gjaldþrota 1995.
Vilhjálmur sat ásamt bróður sínum og móður í stjórn Toppsins verktaka, sem varð gjaldþrota árið 2003. Mæðginin sitja líka stjórn Toppsins innflutnings, sem er enn í rekstri en er með 48 vanskilamál á bakinu, að því er fram kemur í fréttinni.
Þar kemur einnig fram að Lánardrottnar Jarðvéla ehf séu farnir að ókyrrast og samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa einhverjir þeirra tekið flutningabíla og vinnuvélar í sína vörslu, þar á meðal einkabifreið framkvæmdastjóra og eiganda fyrirtækisins. Þá hafa Jarðvélar ehf misst stórt verkefni sem það hafði hjá einkafyrirtæki, þar sem ekki tókst að halda því áfram vegna greiðsluerfiðleikanna.
Tafir hafa nú þegar orðið á einstökum verkþáttum, eins og gatnamótum við Voga, sem átti að vera lokið, og við Grindavíkurafleggjara.
Verkinu í heild á að vera lokið 15. ágúst á næsta ári og gerir Vegagerðin ráð fyrir að sú dagsetning standist, ef verkið kemst á skrið aftur í byrjun nýs árs.