Jarðvangsvika á Reykjanesi í fyrsta sinn
- Vonir standa til um að Reykjanes jarðvangur fái inngöngu í alþjóðleg samtök jarðvanga
Jarðvangsvika í Reykjanes jarðvangi verður haldin 10.-20. maí næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn sem haldin er sérstök jarðvangsvika hér á Reykjanesi en Jarðvangur Reykjanes var settur á laggirnar á síðasta ári. Haldin er jarðvangsvika á þessum árstíma í öllum jarðvöngum í Evrópu en þeir eru um 100 talsins. Vegleg dagskrá verður í jarðvagnsvikunni en markmiðið með henni m.a. að vekja athygli á náttúru Reykjanesskagans og vekja athygli á Reykjanesi sem áfangastað fyrir ferðamenn.
„Markmiðið er að bjóða upp á viðburði sem endurspegla mannlíf, menningu og náttúruna á Reykjanesi. Vonandi verður þetta árlegur viðburður hjá okkur og við stefnum að því að þessi vika stækki ár frá ári,“ segir Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóri. Sveitarfélög, ferðaþjónustuaðilar, söfn og þekkingarstofnanir á svæðinu vinna að þessu verkefni með Reykjanes jarðvangi.
„Reykjanes jarðvangur var stofnaður á síðasta ári en hugmynd um jarðminjagarð á Reykjanesi hefur verið lengi í umræðunni. Starfið að þessum jarðvang mun skila sér til íbúa á svæðinu og í bættri ferðamannaaðstöðu næstu sumur,“ segir Eggert. Reykjanes jarðvangur vonast til að fá inn í alþjóðleg samtök jarðvanga og getað þannig aflað sér upplýsinga sem gætu reynst mikilvægar í framþróun jarðvagnsins.
Íbúar á Reykjanesi eru hvattir til að taka þátt í jarðvangsvikunni. Tjaldsvæði í byggðarlögunum á svæðinu munu opna þann 10. maí í upphafi vikunnar og einnig verða vörur sem framleiddar eru á Suðurnesjum vera áberandi í verslunum. Laugardaginn 11. maí verður Skógfellsleið skokkuð en það er gömul þjóðleið. Jarðvangsvikunni lýkur með Hreinsunardögum á Suðurnesjum 17.-20. maí en þar eru Suðurnesjamenn hvattir til að hjálpa til að að hreinsa til í nærumhverfi sínu.