Jarðsögusýningin Gjáin í Eldborg flutt í Saltfisksetrið
Sem kunnugt er var ákveðið að loka Saltfisksetrinu um síðustu áramót og endurskipuleggja reksturinn en reyndar hefur verið tekið á móti stærri hópum það sem af er ári. Saltfisksetrið verður opnað að nýju um miðjan maí en þá verður búið að setja upp aðra auðlindasýningu á efri hæð hússins. Opnunartímanum verður breytt og verður safnið opið frá kl. 10-17 alla daga í sumar.
HS Orka hefur samþykkt að láta Saltfisksetrinu í té jarðsögusýninguna Gjána sem nú er í Eldborg. Haft hefur verið samráð við Björn G. Björnsson leikmyndahönnuð sem hannaði bæði Gjána og Saltfiskseturssýninguna og hefur hann gert tillögur að uppsetningu á sýningunni á efri hæð Saltfisksetursins sem unnið er eftir.
Stjórn Saltfisksetursins er mjög ánægð með framgang þessa máls og telur að sýningin og áætlaðar breytingar geti orðið mikil lyftistöng fyrir starfsemi í húsinu.
Stjórn Saltfisksetursins telur að með tilkomu sýningarinnar sé nafnið Saltfisksetur Íslands ekki lengur lýsandi fyrir starfsemi hússins. Í húsinu verða sýningar sem sýna tvær af auðlindum Grindavíkur, auk þess sem stjórnin gerir ráð fyrir að húsið muni hafa hlutverki að gegna í menningarlífi Grindavíkur, ekki síst ef Festi fer úr eigu bæjarins. Húsið ætti því að bera sjálfstætt nafn, en innan hússins eru tvær sýningar með sínum nöfnum; Saltfisksetur Íslands og jarðsögusýningin. Nafnið þarf að taka mið af því að sýningum og viðburðum geti fjölgað.
Þá hefur stjórn Saltfisksetursins haldið tvo samráðsfundi með Grindavik Experience um næstu skref varðandi útfærslu Eldfjallagarðs og hlutverk Saltfisksetursins í þeirri vinnu. Meðal annars hefur verið farið í gegnum SVÓT greiningu sem hefur gefist vel.
Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar.