Jákvætt viðhorf gagnvart Íslandi
„Mér finnst að það hljóti að vera hægt að gera meira til þess að fá ferðamenn til að kíkja í miðbæinn okkar. Mér finnst alveg sorglega fátt fólk hérna svona miðað við þessa milljón ferðamanna sem heimsækja landið.“ Oddgeir Garðarsson hjá Stapafelli við Hafnargötu segir að sumarið í ár sé með svipuðum hætti og í fyrra hvað varðar ferðamenn sem heimsækja miðbæ Keflavíkur. Þó er hann á því að það sé búinn að vera stígandi straumur ár frá ári. Hann hefur verið á Hafnargötu með verslun sína í tæp tvö ár á núverandi stað en áður var hann með verslun sem bar sama nafn neðar í götunni. Verslun hans er með vörur og minjagripi sem ætlaðar eru ferðamönnum að mestu leyti.
„Þegar maður fer í miðbæinn í Reykjavík þá þarf maður nánast að tala annað tungumál en íslensku, það er alveg krökkt af útlendingum.“ Oddgeir segir að mikill meirihluti af ferðamönnum komi til hans frá hótelunum og einnig njóti hann góðs af því að vera staðsettur gegnt 10-11 versluninni á Hafnargötu.
Hvaða vörur eru ferðamennirnir að versla?
„Fólk er mikið að skoða og spá í hlutina. Maður tekur eftir því að fólki finnst vera dýrt hérna á landi. Það er mikið verið að spá í því hvað allt kostar og gengið reiknað út í þaula.“ Íslensku lopapeysurnar eru sívinsælar en mörgum þykir þær vera orðnar í dýrari kantinum, en Oddgeir telur að þeir sem eru að prjóna lopapeysur séu að fá frekar lág laun. „Það tekur um 30 klukkustundir að prjóna eina góða lopapeysu og hún er að fara á rúmar 20 þúsund krónur. Af þessum rúmu 20 þúsundum fara svo kannski fimm þúsund í virðisaukaskatt,“ þannig að það gefur auga leið að tímakaupið er ekki ýkja hátt ef miðað er við þetta.
Oddgeiri finnst algengt að fólk sé mjög ánægt eftir ferðalag sitt á Íslandi. Því finnist Ísland vera flott og yfirleitt er jákvætt viðhorf gagnvart landi og þjóð. Helst er fólk að setja út á verðlagið að mati Oddgeirs.
„Það virðist vera að sumarið sé flottur tími hjá ferðaaðilum á svæðinu. Það þyrfti að vera hérna Suðurnesjaættuð ferðaskrifstofa sem myndi einbeita sér að ferðum hérna um svæðið. Það þyrfti einhver að taka sig til og gera það.“ Oddgeir talar um að ekki sé nægileg samstaða meðal aðila hér á svæðinu en blaðamaður hefur orðið var við þá skoðun víða á svæðinu. „Það er eitthvað um það að fólk sé hvort á móti öðru og jafnvel hrætt um það að einhver annar sé að græða meira o.s.frv. Kannski er það eðlilegt, ég veit það ekki. Það þarf að gera eitthvað en kannski eru allir að bíða eftir því að einhver annar taki af skarið.“
Oddgeir telur að það þurfi líka nauðsynlega að fá strætó sem fer milli Flustöðvarinnar og Reykjanesbæjar. „Það er ekki hægt að láta leigubílstjóra sjá um þetta að öllu leyti. Það þarf bara að vera strætó sem gengur reglulega hingað niður í bæ.“