Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Jákvæður tónn og málið líklega samþykkt á næsta fundi
Föstudagur 22. maí 2015 kl. 09:00

Jákvæður tónn og málið líklega samþykkt á næsta fundi

Málefni kísilvers Thorsils í Helguvík.

Ég er hlynntur þessu verkefni og sé ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða málið en virði það að Umhverfis- og skipulagsráð bæjarins hafi viljað fara betur yfir málin. Svona óvissa getur haft slæm áhrif en ráðið mun klára sína afgreiðslu og síðan bæjarstjórn í framhaldinu. Ég hef trú á því að við samþykkjum verkefnið á bæjarstjórnarfundi 2. júní,“ sagði Gunnar Þórarinsson, oddviti Fráls afls, í umræðum um málefni kísilvers Thorsils á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þriðjudag.

Málefni Thorsils hafa verið í eldlínunni að undanförnu og í síðustu viku var farin mótmælaganga og bæjarstjórn hvött til að samþykkja ekki breytingu á deiliskipulagi vegna kísilversins og efna til íbúakosninga vegna málsins. Umhverfis- og skipulagsráð fékk sendar 287 athugasemdir til sín þar sem langflestir hafa áhyggjur af of mikilli mengun frá verinu í Helguvík. Síðasti fundur ráðsins stóð yfir í 4 klukkustundir og endaði á því að meirihluti þess samþykkti að fresta afgreiðslu málsins og efna til aukafundar 27. maí um málið áður en það yrði afgreitt til bæjarstjórnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Miklar umræður urðu um þessi mál á fundi bæjarstjórnar í vikunni. Sjálfstæðismenn höfðu áhyggjur af töfum en Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs, sagði að aldrei fyrr hafi svo margar athugasemdir borist í einu máli hjá bæjarstjórn.

Tónninn gagnvart málefninu var þó jákvæður og ekki var  hægt að greina annað en að það fái jákvæða afgreiðslu á næsta fundi bæjarstjórnar 2. júní.