Jákvæðar niðurstöður úr markþjálfunartilraun meðal nemenda
Hópur ástríðufullra markþjálfa, sem starfa saman undir heitinu Markþjálfahjartað, hefur í haust unnið að tilraunaverkefni í samstarfi við nokkra grunnskóla á Suðurnesjum. Markþjálfahjartað bauð nemendum í 8.-10.bekk að kynnast aðferðum markþjálfunar til að setja sér uppbyggileg markmið í daglegu lífi og bæta þannig lífsgæði sín og námsárangur.
Markmið Markþjálfahjartans er að gera markþjálfun að nærtæku og uppbyggilegu afli í skólastarf ungmenna, þeim til heilla í námi sem og í daglegu lífi þeirra utan skólans.
Það er styst frá því að segja að nemendur tóku marþjálfunartækninni með opnum huga. Þeir blómstruðu í samtölum sínum við markþjálfana og nutu þess að fá að tjá sig um sér hjartfólgin mál á sínum eigin forsendum.
„Umsagnir nemenda að loknu þessu tilraunaverkefni voru mjög jákvæðar að okkar mati, og glöddu okkur sem vinnum með og nýtum samskonar aðferðir í okkar lífi,“ segir Ásta Guðrún Guðbrandsdóttir verkefnisstjóri og ACC markþjálfi.
Dæmi um umsagnir nemenda eftir samtöl:
„Þau minntu mig á að vera alltaf góð við sjálfa mig, að mínir helstu draumar í framtíðinni geta ræst með góðu hugarfari og standa alltaf með mér sjálfri. Mér fannst líka gott að heyra falleg hrós. Þau eru stundum sjaldgæf. Takk fyrir að hjálpa mér.“
„Þau hjálpuðu mér að tala opinberlega um vandamál mín og áhugamál mín og hjálpuðu mér að velja áhugastarf mitt.“
„Gáfu mér sjálfstraust til að bæta mig og sýna mína styrkleika í fótbolta, og að sjá það sem ég vil í framtíðinni.“
„Ég fékk miklu skýrari sýn um hvað ég vil gera í framtíðinni, fann leiðir til þess að ná því, er strax búin að ná nokkrum markmiðum, fékk meira sjálfsöryggi og svo er líka bara geðveikt skemmtilegt að fá svona. Takk æðislega fyrir allt!“
„Að mati okkar sem tókum þátt í verkefninu fyrir hönd Markþjálfahjartans á markþjálfun fullt erindi inn í skólastarf. Þjálfunin er öflugt verkfæri og góð viðbót við allt það faglega starf sem þegar er unnið í grunnskólum landsins. Markviss þjálfun í líflsleikni og námsfærni getur fært okkur öll enn nær því framúrskarandi skólaumhverfi sem við að sjálfsögðu stefnum að,“ segir Ásta Guðrún Guðbrandsdóttir.