Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Jákvæð viðbrögð hjá sveitarfélögunum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 22. september 2023 kl. 12:36

Jákvæð viðbrögð hjá sveitarfélögunum

Bæjarstjórar Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar taka jákvætt í frumkvæði Vogamanna um að skoða frekari sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Bæjarstjóri Grindvíkinga segir að heimsókn Vogamanna verði vel tekið.

Eins og greint var frá á vf.is bókaði bæjarráð Sveitarfélagsins Voga í vikunni þar sem áhuga er lýst á að eiga viðræður við hin sveitarfélögin á Suðurnesjum um sameiningu. 

Kjartan Már Kjartansson, bæarstjóri í Reykjanesbæ segir að málið hafi lítillega verið rætt og fengið jákvæð viðbrögð. „Við tökum vel í hugmyndina og erum tilbúin í viðræður. Þetta hlýtur að vera framtíðin, þetta mun gerast með einum eða öðrum hætti en vissulega þar að vanda þetta mjög vel. Það er ljóst að það má spara verulega bæði tíma og peninga, í yfirstjórn og samstarfi sveitarfélaganna, íbúunum til heilla.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Til upprifjunar varð Reykjanesbæ til með sameiningu Keflavíkurbæjar, Njarðvíkurbæjar og Hafna árið 1994. 

Suðurnesjabær varð til þegar sveitarfélögin Garður og Sandgerði sameinuðust í lok árs 2017. Þykir vel hafa tekist til í báðum þessum sameiningum og því hefur frekari sameining sveitarfélaga á Suðurnesjum oft borið á góma án þess að málið færi í einhvern farveg, fyrr en nú hjá Sveitarfélaginu Vogum.

Magnús Stefánsson segir að hann eigi ekki von á öðru en að Suðurnesjabær sé tilbúin til viðræðna án þess að það feli í sér fyrirfram gefna afstöðu til sameiningar. 

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur segist eiga von á formlegu erindi frá Vogamönnum. „Við munum örugglega taka vel í að hitta þá vini okkar og nágranna að máli. Í sameiningarmálum er að gríðarlega mörgu að hyggja og allt of snemmt að velta framhaldinu fyrir sér á þessari stundu,“ segir Fannar og aðspurður um fyrri afstöðu Grindvíkinga sem hefur ætíð verið neikvæð, svarar hann: „Þú spyrð hvort líklegt sé að það verði meiri sameiningartónn í Grindvíkingum á næstu árum en verið hefur. Ég er ekki viss um að svo sé, en það á alveg eftir að reyna á það. Sjáum hvað setur.“

Fréttin var uppfærð eftir að viðbrögð komu frá bæjarstjóra Grindavíkur kl. 14.