Jákvæð rekstarniðurstaða og áfram mikill vöxtur
Í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir rúmlega 173 m.kr. jákvæðri rekstarniðurstöðu fyrir A hluta bæjarsjóðs og 1.244 m.kr. í samstæðu A og B hluta. Áætlunin gerir því ráð fyrir að Reykjanesbær skili áfram rekstrarafgangi þrátt fyrir miklar áskoranir m.a. tengdar innviðauppbyggingu til að halda í við mikinn vöxt sveitarfélagsins og fjölgun íbúa. Þetta kemur fram í frétt frá Reykjanesbæ.
„Það hefur verið megin áhersla hjá okkur að halda vel á spilunum og sýna skynsemi í rekstri“, segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar. „Við erum mjög ánægð með hvernig til hefur tekist þrátt fyrir krefjandi tíma og óhagstætt vaxtaumhverfi. Það getur verið snúið þegar við stöndum fyrir mikilli innviðauppbyggingu til að mæta auknum íbúafjölda og einnig framkvæmdaþörf í skólum og öðru húsnæði sveitarfélagsins vegna rakaskemmda. En það er auðvitað líka jákvætt; íbúafjölgunin segir okkur um leið að hér sé gott að búa og næga atvinnu að fá.“
Á fyrri hluta næsta árs á að taka í notkun annan áfanga Stapaskóla sem er fullbúið íþróttahús og sundlaug. Framkvæmdir við nýja leikskóla við Drekadal og í Hliðarhverfi eru í fullum gangi og stendur til að opna þá næsta haust. Þá verður einnig opnuð leikskóladeild í húsnæðinu við Skólaveg 1 sem verður útibú frá leikskólanum Tjarnaseli. Áfram verður haldið með endurbyggingu á Myllubakkaskóla og Holtaskóla, nýr vaktturn byggður við Sundmiðstöðina til að auka öryggi sundlaugagesta og svo mætti áfram telja. Gert er ráð fyrir að fjárfestingar í nýframkvæmdum nemi 5,3 milljörðum á næsta ári.
Vinnan við fjárhagsáætlunina gekk vonum framar bætir Kjartan Már við. „Það eru margir sem koma að gerð fjárhagsáætlunar og var góð samvinna á milli meiri- og minnihluta við að halda okkur innan ramma. Þá vil ég þakka starfsfólki Reykjanesbæjar sérstaklega fyrir þeirra þátttöku í vinnunni við gerð áætlunarinnar“.
Helstu áherslur og verkefni á árinu 2024
- Hvatagreiðslur fyrir íbúa 67 ára og eldri í fyrsta sinn í boði á árinu 2024
- Nýr leikskóli byggður í Dalshverfi III sem tekin verður í notkun um haustið 2024
- Framkvæmdir við leikskóla í Hlíðarhverfi sem áætlað er að ljúki á árinu 2024
- Klára byggingu íþróttamiðstöðvar við Stapaskóla með viðurkenndum keppnisvelli fyrir íþróttir innanhúss ásamt sundlaug og taka í notkun
- Áframhaldandi vinna við að koma Myllubakkaskóla í starfhæft ástand en áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdum ljúki haustið 2025
- Áframhaldandi vinna við að koma Holtaskóla í starfhæft ástand en áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í janúar 2026
- Opnuð leikskóladeild á Skólavegi 1 fyrir elsta árgang Tjarnarsels sem er aukning um 25 pláss.
- Byrjað verður að fjárfesta í smáhýsum fyrir heimilislausa íbúa Reykjanesbæjar sem eru með fjölþættan vanda
- Nýr vaktturn í Sundmiðstöðinni til að auka öryggi sundlaugagesta
- Unnið að viðgerðum á húsnæði vegna rakaskemmda
- Framkvæmdir hefjast við Njarðvíkurhöfn sem munu stórbæta öryggi og aðstöðu á svæðinu og auka möguleika á atvinnuuppbyggingu fyrir hafnsækna starfsemi
- Áfram unnið að innleiðingu stafrænna lausna
- Vinna við byggingu nýs hjúkrunarheimilis í samvinnu við ríkið heldur áfram
- Áfram unnið að því að fylgja eftir og innleiða umhverfis- og loftlagsstefnu
- Á áætlun að ljúka innleiðing á barnvænu sveitarfélagi í samstarfi við UNICEF
- Fjármagn sett í að bæta umferðaröryggi barna
- Fjármagn sett í uppbyggingu skólalóða
- Fjármagn sett í áhorfendabekki í Sundmiðstöðinni
- Lyfta sett í 88 húsið til að auka nýtingu hússins
- Fjármagn sett í stuðning við Fimleikafélag Keflavíkur við endurnýjun áhalda og tækja
- Aukning á fjármagni til Fjörheima til að efla starfsemi og opna fleiri útibú.
- Fjármagn í að framfylgja markaðsstefnu Reykjanesbæjar
- Fjármagn sett í viðburðahald vegna 30 ára afmælis Reykjanesbæjar
Gott samstarf minni- og meirihluta – Umbót sat hjá
Vinna við fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar gekk vel og var í góðu samstarfi meirihluta og minnihluta. Allt stefndi í að allir bæjarfulltrúar myndu samþykkja fjárhagsáætlun fyrir 2024 en það hefur ekki verið venjan, minnihlutinn hefur iðulega setið hjá við atkvæðagreiðslu.
Margrét Sanders frá Sjálfstæðisflokki hafði orð á góðu samstarfi við áætlanagerðina. Það hefur ekki alltaf verið raunin í gegnum tíðina því fjárhagsáætlun er aðal tæki bæjaryfirvalda þar sem helstu ákvarðanir eru teknar fyrir komandi ár og ekki allir sammála.
Sjálfstæðismenn bókuðu þó á næst síðasta bæjarstjórnarfundi og lögðu til að skattur á íbúðahúsnæði og fyrirtæki lækkaði og hægt væri að hækka tekjuáætlun á móti án þess þó að tillagan næði fram að ganga.
Svo fór að fjárhagsáætlun var samþykkt með öllum atkvæðum nema atkvæði fulltrúa Umbótar, varamannsins Hörpu Sævarsdóttur sem sat hjá. Hún lagði fram bókun þar sem fram kemur m.a. að Umbót telji að svigrúm sé til lækkunar á álagsprósentu fasteignagjalda sem ætti að nýta. Af þeim sökum muni Umbót sitja hjá. Það vakti nokkra athygli að Margrét Þórarinsdóttir, oddviti Umbótar var í salnum á bæjarstjórnarfundinum en lét Hörpu sem var 15. fulltrúi á lista Umbótar í kosningunum, sitja fundinn frá Umbót.