Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ítreka að allur rafbúnaðurinn fullnægi íslenskum reglugerðum
Laugardagur 15. janúar 2011 kl. 14:36

Ítreka að allur rafbúnaðurinn fullnægi íslenskum reglugerðum

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, KADECO, hefur lokið nær öllum verkefnum sem snúa að umbreytingu rafdreifikerfis í sínum eignum í gömlu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, sem nú heitir Ásbrú. Þetta kom fram í frétt í Víkurfréttum í október sl. Rafiðnaðarsamband Íslands ályktaði í gær og ítrekar áður framsettar kröfur, að allur rafbúnaðurinn á varnarsvæðinu fullnægi íslenskum reglugerðum og áskilur sér jafnframt rétt til þess að beina kvörtun til Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til þess að knýja á um réttar efndir á samningnum um EES.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Í sömu frétt Víkurfrétta frá því í október kemur fram að Háskólavellir eiga þó nokkuð eftir í sínum íbúðum á svæðinu og eru að vinna í fjármögnun þeirra verkefna. Þá er ÍSAVÍA að vinna í hönnum á þeim breytingum sem þarf að gera á flugvallarsvæðinu. Þar þarf að breyta öllum brautarljósum á flugbrautum og þá er félagið með fjölmargar byggingar á flugvallarsvæðinu sem gera þarf rafkerfisbreytingar í.



Rafiðnaðarsamband Íslands ályktaði í gær og vill að ráðist tafarlaust í það verk að koma umræddum rafbúnaði á Keflavíkurflugvelli í eðlilegt horf.


„Á fundi miðstjórnar og samninganefnda Rafiðnaðarsambands Íslands þann 14. janúar 2010 var fjallað um rafmagnsöryggismál á fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli.


Þann 12. nóvember 2007 voru sett á Alþingi fordæmislaus bráðbirgðalög þar sem kippt var úr sambandi löggiltum reglugerðum um rafmagnsöryggismál á fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli. Í þeim lögum var eigendum og forráðamönnum bygginga á svæðinu heimilt að nota raflagnir og rafföng í þáverandi ástandi til 1. október 2010.


Þessu var harðlega mótmælt af hálfu Rafiðnaðarsambands Íslands, þarna var löggjafinn að íhlutast með óeðlilegum hætti í þágu eins aðila, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, á kostnað rafmagnsöryggis. Getur byggingaraðili vænt sömu meðferðar? Getur stór aðili eins og t.d. Landsvirkjun vænt sömu meðferðar ef reistar verða stórar vinnubúðir? Þessar reglugerðir eru reyndar ekki allar á valdi íslenskra stjórnvalda, þær eru samkvæmt EES stöðlum sem íslenskt stjórnvöld geta ekki breytt og þeim grundvelli stenst þessi aðgerð alls ekki skoðun með vísan í almennar meginreglur um jafnræði. Setning bráðabirgðalaganna árið 2007 var að mati Rafiðnaðarsambands Íslands brot á skuldbindingum Íslands skv. samningnum um EES, sbr. lög nr. 2/1993.


Nú eru fyrrgreind bráðabirgðalög fallin úr gildi. Mannvirkjastofnun hefur ítrekað, en árangurslaust, gert öllum eigendum eða umráðamönnum bygginga á svæðinu grein fyrir því að eftir 1. október 2010 yrðu raflagnir bygginga á þeirra vegum að vera í samræmi við íslenskar reglur á rafmagnsöryggissviði.


Nú eru fjölmargir rafiðnaðarmenn atvinnulausir, auk þess að fjölmargir hafa flutt af landi brott og fleiri eru að undirbúa flutning. Það var óásættanlegt að þetta mál skyldi ná fram að ganga á sínum tíma, sama staða er uppi nú. Ljóst er að það væri hægt að ná mjög góðum samningum í dag til þess að ljúka þessum málum og um leið bæta töluvert úr erfiðu atvinnuástandi á Suðurnesjum,“ segir í ályktun Rafiðnaðarsambands Íslands.