Íþróttahús og leikskóli til skoðunar
Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar er nú að skoða hugmyndir að breytingum á Íþróttamiðstöðinni. Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri, sagði að þar vantaði þreksal, aðstöðu fyrir gufubað, betri starfsmannaaðstöðu og nauðsynlegt væri að lagfæra afgreiðsluna, en vaktþjónustu við potta og laug er einnig ábótavant.„Þetta ásamt því að bæta þarf við kennslustofum, varð til þess að við fengum arkitekt til að skoða málið. Tillaga hans hefur verið samþykkt í bæjarráði. Hún er nú komin á 3ja ára áætlun, sem bæjarstjórn er að fara yfir, m.t.t. breytinga á fjárhagsáætlun 2000 vegna slæmrar rekstrarútkomu á síðasta ári“, sagði Sigrður Valur. Að sögn Sigurðar Vals verður verkið ekki boðið út á þessu ári en framkvæmdir við íþróttahúsið, sem og stækkun leikskólans, eru hvort tveggja verkefni næstu 3ja ára.