Íþróttaakademían hlýtur alþjóðleg verðlaun
Arkitektastofan Arkitektur.is fékk á dögunum alþjóðleg verðlaun fyrir hönnun á byggingu Íþróttaakademíunnar í Reykjanesbæ. Mikil upphefð fylgir þessum verðlaunum en niðurstaða dómnefndarinnar verður kynnt í þremur útbreiddum fagtímaritum sem fjalla um menntamál og skólabyggingar.
DesignShare Merit verðlaunin eru veitt á alþjóðavísu af bandarískum samtökum sem leggja sérstaka áherslu á skólabyggingar og nýungar í kennsluháttum. Hönnun og notagildi byggingarinnar ásamt umhverfi vakti hrifningu dómnefndarinnar eins og umsögn hennar ber með sér.
Tengingin á milli rýma í húsinu vekur sérstaka hrifningu og allt útlit þykir mikið augnayndi. Dómnefndin er skipuð fagfólki í kennslufræðum og arkitektúr. Guðmundur Gunnarsson hjá Arkitektur.is neitar því ekki aðspurður að upphefð fylgi þessari viðurkenningu, ekki síst í ljósi þess að þrjú útbreidd fagtímarit munu fjalla sérstaklega um verðlaunabyggingarnar.
Það auki vissulega á hróður fyrirtækisins út á við og komi Íslandi á kortið hvað varðar faglega þekkingu og metnað í greininni.
„Það er vissulega gaman að fá það hrós sem felst í slíkri viðurkenningu. Við verðum vör við aukinn áhuga á því sem við erum að gera, sem sést m.a. á fyrirspurnum og aukinni umferð á heimasíðuna okkar. Í leiðinni er þetta líka heilmikil viðurkenning fyrir Íþróttaakademíuna og það sem hún stendur fyrir.
Einnig fyrir Reykjanesbæ og eigendur hússins fyrir þann framúrskarandi metnað sem liggur að baki byggingu þess,” sagði Guðmundur í samtali við VF.
Myndir: arkitektur.is