Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Íslenska hjálparþotan farin frá Keflavík
Sunnudagur 2. janúar 2005 kl. 16:32

Íslenska hjálparþotan farin frá Keflavík

Sex íslenskir læknar og tólf hjúkrunarfræðingar voru að leggja af stað til Taílands nú um hálffjögurleytið til þess að sækja sænska ferðamenn á hamfarasvæðunum í Asíu. Sænsk stjórnvöld þáðu í gær þá aðstoð sem Íslendingar buðu fram vegna hamfaranna og var þá ákveðið að íslenski hópurinn færi til Taílands í dag. Lyf og vatn verða einnig flutt héðan á svæðið en farið verður með Boeing 757-200 flugvél Icelandair, að því er fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra bauð Svíum aðstoðina í samtali við Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, í samtali sem þeir áttu daginn fyrir gamlársdag. Morgunblaðið á Netinu greinir frá.

Áætlað er að sjúklingar verði 18 á sjúkrabörum og 40 - 50 aðstandendur og minna slasaðir verði einnig í flugvélinni til Stokkhólms en þangað er áætlað að koma síðdegis þriðjudaginn 4. janúar. Sjúklingarnir eru margir alvarlega slasaðir og aðrir með beinbrot, sýkingar, sár og drep. Einnig er eitthvað um hryggjarskaða og iðrasýkingar. Andlegt ástand slasaðra og aðstandenda er mjög slæmt og er sérstök áhersla lögð á sinna þeim þætti vel, að því er fram kemur á heimasíðu Landspítala - Háskólasjúkrahúss.

Leiðangursstjóri LSH er Friðrik Sigurbergsson læknir og Guðbjörg Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur skipuleggur störf hjúkrunarfræðinganna. Í förinni eru fulltrúi forsætisráðuneytisins, Steingrímur Ólafsson, sem jafnframt verður leiðangursstjóri. Einn fulltrúi almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra er með í för, tveir fulltrúar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og þrír frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

Allir læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir eru sérstaklega þjálfaðir í að sinna slösuðum og bráðveikum og hafa reynslu af því að annast einstaklinga sem hafa orðið fyrir andlegum áföllum. Þeir sem fara frá Landsbjörgu og Slökkviliðinu eru einnig sérþjálfaðir í umönnun mikið slasaðra.

 

Texti af vef Morgunblaðsins, http://www.mbl.is . Myndir: Páll Ketilsson og Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024