Íslensk náttúra og magnað útsýni í nýjum Saga Lounge

Ný og stórglæsileg Saga Lounge setustofa Icelandair var opnuð sl. fimmtudag. Nýja setustofan er á þriðju hæð í suður-byggingu flugstöðvarinnar og er 1350 fermetrar að flatarmáli, um tvöfalt stærri en Saga Lounge stofan á neðstu hæð.

Hönnuðir eru þeir Eggert Ketilsson og Stígur Steinþórsson. Íslensk náttúra og menning eru í hávegum höfð í nýju setustofunni þar sem lögð er áhersla á þægindi, gæði og gestrisni. Þaðan er líka stórbrotið útsýni, nærri því allan hringinn yfir Reykjanes, Faxaflóa og allt vestur til Snæfellsjökuls á heiðskírum degi. Ekki er ólíklegt að fleiri muni nú gleyma fluginu sínu því hægt er að eiga góðar stundir í skemmtilegum legubekkjum og hægindastólum eða við arineld.

Suðurnesjamenn eiga mestan heiðurinn af sjálfri uppsetninga- og smíðavinnunni í nýju stofunni. Þar fóru fremstir starfsmenn og eigendur Trésmíðaverkstæðis Stefáns og Ara en þeir bræður hafa komið að vinnu við síðustu fjórar setustofur Icelandair í flugstöðinni.

Yfirmaður nýju setustofunnar er Jenný Waltersdóttir og hún sagðist afar ánægð með útkomuna. „Þetta er örugglega ein glæsilegasta setustofa í flugstöð í heiminum,“ sagði Jenný og brosti sínu blíðasta en hún sagði að fjögur önnur flugfélög myndu fá aðgang að setustofu Icelandair.

Sjáið fleiri myndir í myndasafni sem fylgir fréttinni (neðst).

Birgir Holm, forstjóri Icelandair og Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar vígðu nýju setustofuna. VF-myndir/pket.

Jenný Waltersdóttir og starfsmenn Saga Lounge og frá IGS.

Útsýnið er magnað úr nýju setustofunni. Vatnajökull keyrir í hlað.

Nýr Saga Lounge

▼ Fleiri myndir