Íslendingur fær hlutverk í kvikmynd
Víkingaskipið Íslendingur mun leika burðarhlutverk í kvikmyndinni Bjólfskviðu sem Friðrik Þór Friðriksson leikstýrir. Skipið verður flutt á bíl austur í Jökulsárlón þar sem tökur fara fram 6. september n.k. Að því loknu heldur skipið landleiðina til Þorlákshafnar en þaðan mun það sigla til Vestmannaeyja. Þar verður skipið tilbúið að fara austur í Dyrhólaey þar sem tökur á kvikmyndinni fara fram seinni hlutann í september.
Gunnar Marel Eggertsson skipstjóri mun að sjálfsögðu fylgja skipinu í þessu nýja hlutverki sem og Böðvar Gunnarsson handverksmaður sem unnið hefur að gerð minni útgáfu af Íslendingi með skipstjóranum í sumar. Gert er ráð fyrir að Íslendingur snúi aftur til Reykjanesbæjar í byrjun október.
Frétt tekin af vef Reykjanesbæjar.